149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[17:42]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við samgönguáætlun frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og vil ég þakka honum ágæta yfirferð yfir málaflokkinn. Hér birtist stefnumótun stjórnvalda og Alþingis í samgöngumálum í fyrsta skipti til 5 og 15 ára. Áður hafa verið lagðar fram áætlanir til 4 og 12 ára, en hér er um tímamót að ræða þar sem í fyrsta sinn er lögð fram samgönguáætlun til 15 ára til samræmis við lög um samþættingu og samræmingu áætlana. Fimm ára áætlun er framkvæmdaáætlun sem nú er lögð fram fjármögnuð og í fullu samræmi við opinber fjármál. Það er í sjálfu sér stór og mikilvægur áfangi sem sýnir ábyrga fjármálastjórnun og framtíðarsýn. Þetta verklag er mikilvægt svo að hægt sé að horfa til framtíðar og leggja fram plögg sem hald er í. Hér er ekki um óskalista að ræða heldur raunhæfa fjármagnaða áætlun.

Hæstv. forseti. Samgöngur eru grunnstoð efnahagskerfisins. Góðar samgöngur leggja grunn að samkeppnishæfni þjóðarinnar og lífsgæðum í landinu. Eins og fram kemur í greinargerð eru góðar samgöngur og fjarskipta- og upplýsingatækni forsenda þess að hér búi sjálfstæð nútímaþjóð. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að þróun byggðar í landinu og þróun samgöngukerfisins haldast í hendur og hafa áhrif hvor á aðra. Samgöngukerfið er lífæð þjóðarinnar og verður seint ofmetið því að samgöngur snúast ekki eingöngu um flutning fólks og farms á landi, sjó og lofti heldur hefur samgöngum líka alltaf fylgt flutningur upplýsinga og hugmynda. Mikil bylting hefur átt sér á því sviði og mun upplýsingatæknin ráða miklu um þróun samgangna í framtíðinni.

Hæstv. forseti. Aðdragandi þess að samgönguáætlun er lögð fram er langur, felst í samráðsferli og samtali svo að hægt sé að forgangsraða og vinna faglega að framlagningu hennar. Samgönguáætlun tekur til fjáröflunar og útgjalda allra greina samgangna, þ.e. flugmála, vegamála og siglingamála, þar með talið almenningssamgangna, hafnamála, sjóvarna, öryggismála og umhverfismála samgöngugreina. Sviðið er vítt og snertir í raun alla þætti þjóðfélagsins og þar með alla íbúa landsins. Því er samtal og samráð um þessi mál mikilvægt.

Sú sem hér stendur hefur fengið að veita samgönguráði forystu og starfa með því. Í skipunarbréfi ráðsins frá ráðherra stendur orðrétt, með leyfi forseta:

,,Mikilvægt er að stuðla að samþættingu samgöngukerfisins sem heildar með það að markmiði að það þjóni íbúum landsins, ferðamönnum og atvinnulífi með skilvirkum hætti. Áfram skal leita fjölbreyttra leiða til að styrkja núverandi samgöngukerfi og þróa með hliðsjón af þörfum almennings og atvinnulífs og því margháttaða þjónustu- og öryggishlutverki sem samgöngukerfið gegnir.“

Þung áhersla er lögð á öryggi og byggðasjónarmið, þ.e. að auka staðbundin búsetugæði og styrkja atvinnuuppbyggingu. Samgönguráð hefur það hlutverk að leggja grunn að samgönguáætlun. Það hefur átt 11 formlega fundi og fundað með rúmlega 300 aðilum. Auk þessara formlegu funda með landshlutasamtökum sveitarfélaga, sveitarstjórnarfulltrúum, Samtökum atvinnulífsins, fulltrúum frjálsra félagasamtaka og ferðaþjónustunni, var haft víðtækt samráð við aðra aðila sem koma að opinberri áætlanagerð. Horfa þarf til fjarskiptaáætlunar, byggðaáætlunar og áætlana um landsskipulag, ferðamálastefnu, lýðheilsustefnu, aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum o.fl. Samráðsferlinu lauk með lögbundnu samgönguþingi nú í sumar.

Niðurstöður samráðsfunda eru þessar helstar: Alls staðar lögðu menn mikla áherslu á öryggi. Kallað er eftir auknu sýnilegu eftirliti og lækkun hámarkshraða þar sem þarf. Það að lækka hámarkshraða getur verið öflug leið til að fækka slysum sem eru allt of mörg og taka mikinn toll. Menn vilja fækka einbreiðum brúm og setja bundið slitlag á héraðs- og tengivegi, en það er athyglisverð staðreynd að innan við helmingur af vegakerfinu er með bundið slitlag.

Það má lesa úr niðurstöðum að menn vilja forgangsraða nýframkvæmdum þannig að áhersla verði lögð á þau svæði sem setið hafa eftir. Ljóst er að flestir vilja halda jarðgangagerð skipulega áfram. Ánægja er með áform um bættar almenningssamgöngur og áherslu á styrkingu innanlandsflugs sem hluta af því. Kallað var eftir því að efla þurfi Hafnarbótasjóð og styrkja flutningaleiðir.

Ferðaþjónustu vilja menn styrkja með föstu millilandaflugi á fleiri staði en nú er og bent var á að mikilvægt er að varðveita upplifun ferðamanna á hálendinu, t.d. með óbrúuðum ám svo að eitthvað sé nefnt. Eitthvað þarf þá að vera eins og það er, um leið og aðkallandi er að bæta samgöngur almennt og alls staðar. Þá er ekki annað að heyra á íbúum landsins en að þeir séu tilbúnir til að skoða fjölbreyttar fjármögnunarleiðir og fara samvinnuleið í því þar sem það á við.

Hæstv. forseti. Áætlanir sem hér liggja fyrir endurspegla þessi sjónarmið. Áætlunin tekur mið af og er hluti af heildstæðri samþættri stefnu í samgöngumálum, fjarskiptamálum, byggðamálum og málefnum sveitarfélaga. Hún er í samræmi við samþykktar áætlanir á vegum Alþingis og ríkisstjórnar. Samgönguáætlun sem nú liggur fyrir þinginu sýnir breytt og bætt vinnubrögð í áætlanagerð. Í fyrsta skipti er hún í samræmi við væntanlegar fjárveitingar sem samþykktar voru af Alþingi með fjármálaáætlun 2019–2023. Samgönguáætlun er raunhæft plagg um framkvæmdir sem hægt er að ráðast í á næstu árum.

Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að ríkisstjórnin vilji hraða uppbyggingu í vegamálum og öðrum samgönguinnviðum, bæði með nýframkvæmdum og viðhaldi. Strax var farið í þessa vinnu. Hefur viðhald á vegakerfinu aldrei verið meira en nú í ár. Brugðist var við brýnum viðhaldsverkefnum og uppsöfnuðum vanda undanfarinna ára. Á þessu ári var 12 milljörðum veitt til brýnna úrbóta til að tryggja umferðaröryggi sem best. Áætlunin miðar við að auka framlög til viðhalds í 10 milljarða kr. á ári frá árinu 2019. Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir á vegakerfinu næstu fimm árin.

Hæstv. forseti. Við komumst langt með þessa upphæð, en hún hrekkur þó ekki til að mæta uppsöfnuðum vanda eins hratt og við flest vildum. Því hefur ráðherra samgöngumála bent á þann möguleika að hægt sé að tvöfalda þessa upphæð með samvinnuleið í fjármögnun á ákveðnum mannvirkjum. Þann kost þurfum við að skoða vel og nýta það sem á við svo að hægt sé að flýta aðkallandi og mikilvægum verkefnum. Eitt af markmiðum samgönguáætlunar felst í áætlun um jákvæða byggðaþróun og að auka búsetugæði, þ.e. að samgöngur séu eins greiðar, áreiðanlegar og öruggar og kostur er með sérstakri áherslu á landshluta og byggðakjarna innan þeirra. Líta þarf á samgöngukerfi sem eina heild með það að markmiði að það þjóni íbúum og atvinnulífi með skilvirkum hætti. Allar aðgerðir lúta að því að hámarka öryggi, vernda mannslíf og standa jafnfætis þeim þjóðum sem fremst standa í öryggismálum. Við lok 15 ára áætlunar er markmiðið að hafa byggt upp grunnnet samgöngukerfisins. Það er stórt markmið sem þarf að stefna markvisst að með öryggissjónarmið að leiðarljósi við forgangsröðun.

Aðkallandi er að tryggja öryggi allra landsmanna og gesta okkar um allt land. Markmið um öruggar samgöngur er mikilvægur þáttur og lögð á það áhersla að öryggi sé haft til hliðsjónar við allar ákvarðanir, áherslur og aðgerðir í samgönguáætlunum óháð ferðamáta. En markmið þeirra er að vernda mannslíf og að Ísland standi jafnfætis þeim ríkjum sem fremst standa í öryggismálum.

Verkefnin sem blasa við eru svo fjölbreytt að haf og himinn eru á milli þeirra þegar horft er til umfangs. Þau snúa ekki eingöngu að vegakerfi landsins heldur flugvöllum og höfnum líka. Gert er ráð fyrir auknu fjármagni í viðhald flugvalla, en gera þarf betur ef duga skal. Stefnt er að breyttri rekstrartilhögun flugvallakerfis landsins svo að tryggja megi betur rekstur og viðhald þess. Bind ég vonir við að nefnd sem vinnur að þessum málum skili fljótt og vel af sér svo að þessu megi sem fyrst koma í gott horf. Þá mun flugstefna landsins birtast innan tíðar og vonandi eigi síðar en á næsta ári þegar flug á Íslandi á 100 ára afmæli.

Hafnir landsins þurfa einnig viðhald, en margar þeirra eru komnar á þann stað að sinna þarf miklu viðhaldi. Þess vegna hefur framlag til Hafnarbótasjóðs aldrei verið meira og samgönguáætlun miðar að því að á fyrsta tímabili verði unnið að siglingastefnu fyrir Ísland sem stefni að auknum hagvexti og atvinnusköpun í siglingum og tengdum greinum. Það hlýtur að vera eyþjóð mikilvægt.

Samgöngur snerta daglegt líf okkar allra og ákvarðanir stjórnvalda skipta okkur miklu máli. Með skýrri framtíðarsýn og fastri eftirfylgni munum við ná þessum mikilvægu markmiðum. Þannig styrkjum við búsetu um allt land og aukum möguleika okkar til áframhaldandi uppbyggingar samfélagsins.

Ég óska umhverfis- og samgöngunefndar góðs gengis við vinnu við þessa þingsályktunartillögu.