Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[17:52]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér samgönguáætlun, annars vegar til 15 ára, hvorki meira né minna, og hins vegar til fimm ára. Þessar þingsályktunartillögur eru mikil rit ásýndar og innihald ekkert minni háttar mál, því að við ræðum hér mál er varðar alla landsmenn, velferð þeirra og lífsviðurværi. Sjálft grunnkerfið okkar, samgöngur á landi, lofti og legi eru líka samgöngur, ef svo má kalla innviði fjarskipta, samgöngur í víðasta skilningi þess orðs.

Við ræddum á Alþingi í gær um mikilvægi þess að tryggja öryggi fólks og lífsviðurværi, að við tryggjum það að grundvelli lífsins verði ekki kippt undan fólki með aðgerðum okkar, að koma byggðum landsins til aðstoðar, því að það er tilgangurinn hér á landi að setja lög og reglur, en líka að deila út gæðum landsins með sanngjörnum hætti. Þannig skiptir máli að hugað sé að hverjum landshluta fyrir sig, að þess sé gætt að heilu landshlutarnir verði ekki eftir þegar skipta á fjármunum úr ríkiskassanum til samgöngubóta og nýframkvæmda.

Það er ekki síður mikilvægt að gætt sé að og sérstaklega litið til þeirra svæða sem hafa á einhvern hátt og einhverra hluta vegna verið skilin eftir í því fordæmalausa góðæri sem ríkt hefur undanfarin ár. Eða hvað?

Það eru nefnilega svæði hér á landi sem hafa einhvern veginn farið svolítið á mis við þetta fordæmalausa góðæri. Það eru til svo miklir peningar í ríkiskassanum, er sagt á tyllidögum, en samt sem áður er það svo að íbúar ákveðinna landssvæða þurfa ár eftir ár að þola það að komast ekki á milli staða til að sækja grunnþjónustu. Þetta eru ekki bara þeir sem velja það að búa fjarri byggð, svo afskekkt að það er nánast ekki hægt að gera kröfu um að komast alltaf út um allt, þetta er stór hluti landsins. Hér erum við að tala um Vestfirði sem eru okkur mjög ofarlega í huga á Alþingi þessa dagana.

Ég vil byrja á því að beina sjónum okkar á þinginu að því hvernig við ætlum að tryggja þeim landshluta viðunandi samgöngur. Því miður virðist enn ekki gert ráð fyrir að slíkt gerist á næstu árum hjá núverandi ríkisstjórn. Enn einu sinni eru nefnilega samgöngubætur og nýframkvæmdir afskaplega staglkenndar á þessu svæði. Vissulega eru kærkomin Dýrafjarðargöng á dagskrá sem kostað hafa mikla fjármuni. Við sjáum fram á að þau klárist í náinni framtíð, sem er mikið fagnaðarefni, enda vita allir hvað þau eru mikilvæg fyrir þetta svæði, bæði fyrir íbúa og ferðamenn. En það sem eftir stendur er hvað tekur við þegar út úr göngunum er komið. Af því að þegar ekið er að norðan og suður mætir manni hringtorgið við Dynjanda. Svæðið við fossinn er orðið gullfallegt, óskaplega fallegt, og hrein prýði. En hvernig á það að gagnast þeim Vestfirðingum sem þurfa að komast leiðar sinnar milli Suður- og Norðurfjarða? Íbúar á Suðurfjörðum eiga samkvæmt ákvörðun stjórnvalda að sækja heilbrigðisþjónustu norður á Ísafjörð, til heilbrigðisstofnunarinnar þar, en drjúgan tíma ársins er ófært þá leið. Það kallar því á um það bil átta klukkustunda akstur fyrir þá sem búa á Suðurfjörðunum ætli þeir að sækja heilbrigðisþjónustu hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði. Mann langar eiginlega að spyrja: Hvaða snillingur fann upp á þessu?

Hæstv. samgönguráðherra sagði þegar hann kynnti samgönguáætlun hér fyrr í dag að umferðaröryggi landsmanna og ferðamanna væri númer eitt, tvö og þrjú. Þá veltir maður fyrir sér hvort það sé kannski málið. Það er vissulega mikið öryggi í því að sitja bara heima og fara ekki neitt, sitja bara heima og vonast til þess að hlutirnir batni, sitja bar heima vegna ónýtra samgangna. Það er mikið öryggi í því að leggja ekki vegi og tryggja ekki greiðar samgöngur þannig að fólk komist bara ekkert leiðar sinnar. En auðvitað vitum við öll, þar á meðal hæstv. ráðherra, að það er ekkert öryggi í því. Fólk verður að komast leiðar sinnar, sækja nám, sækja störf og sækja þjónustu um landið. Þar hefur Vestfirðingum, svo lengi sem elstu menn muna, verið gert að búa við algerlega ófullnægjandi ástand.

Þjóðvegurinn vestur á Ísafjörð er vissulega betri norðurleiðina en sú leið sem tengir Suðurfirði við Norðurfirði. En það er samt þannig að það er í rauninni ekki hægt að mæta ökutæki þarna á leiðinni. Hefðbundin ökutæki geta varla mæst á leiðinni á þjóðveginum til Ísafjarðar, þessum stærsta þéttbýliskjarna Vestfjarða. Það er því lítið öryggið sem þar er.

Það er annað svæði sem ég vil einnig vekja athygli á, það er höfuðborgarsvæðið, sem einnig hefur um langt skeið verið fullkomlega vanrækt af stjórnvöldum hvað varðar uppbætur og nýframkvæmdir í samgöngum. Hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem tveir þriðju hlutar landsmanna búa fá enn að reka á reiðanum. Tvöföldun Reykjanesbrautar í gegnum Hafnarfjörð, sem er ekki bara til að greiða samgöngur heldur er jafnframt gríðarlega mikilvægt öryggismál, er ekki tryggt alla leið á næstu fimm árum, alls ekki. Við erum alltaf að púsla einhverja búta, einhverja stubba. Þarna er um að ræða gríðarlegt öryggisatriði fyrir nánast alla ferðamenn sem koma til landsins, nema þá sem koma með Norrænu. Við erum að tala um íbúa suðvesturhornsins sem sækja vinnu, nám og þjónustu hér á höfuðborgarsvæðinu, en líka þá íbúa höfðuborgarsvæðisins sem starfa á Reykjanesi sem þurfa að fara þessa leið daglega. Þessi gríðarstóri hópur er ekki öruggur. Af því að hæstv. samgönguráðherra talaði sérstaklega um að öryggismálin væru þungvigtaratriði í samgönguáætlun I og II, báðum þeim sem við fjöllum um í dag, verður að segjast eins og er að þetta er atriði sem ég held að verði að komast ofar á forgangslistanum.

Í lokin, af því að tíminn er að hlaupa frá mér, verð ég að minnast á það risastóra öryggisatriði sem eru almenningssamgöngur. Loftslagsbreytingarnar sem birtast okkur með ógnarþunga þessi dægrin eru af þeirri stærðargráðu að við verðum að bregðast við. Við verðum að minnka kolefnislosun, það gerum við með því að fækka einkabílum. Við gerum það ekki með því að segja fólki að það eigi bara að vera heima hjá sér, nei, við gerum það með því að efla almenningssamgöngur, bæði hérna á höfuðborgarsvæðinu, þar erum við auðvitað að horfa á borgarlínu, en við þurfum mögulega að hraða ferð þar, en líka að aðstoða fólk við að ferðast til og frá höfuðborgarsvæðinu.

Hvernig er t.d. með almenningssamgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Reykjaness? Hvernig er með almenningssamgöngur á Vesturland, á Suðurland? Erum við kannski svolítið sofandi þegar kemur að almenningssamgöngum almennt? Þurfum við ekki að fara að búa til öflugra tæki, öflugri almenningssamgöngur sem tryggja að fólk sé bæði öruggt í umferðinni en geti líka komið sér á meiri hraða á milli svæða? Ég held að við þurfum að hugsa aðeins út fyrir boxið og vera svolítið framsýn og hugrökk þegar kemur að því. Af því að þetta er stóra málið til framtíðar.