Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[18:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að tala um samgönguáætlun til fimm ára, 2019–2023 og einnig frá 2019–2033.

Samgönguráðherra talar um samgöngumál og í áætluninni er tvöföldun Reykjanesbrautar frá Krísuvík og Kaldárseli. Þarna hafa orðið skelfileg slys. Þetta er einn af slysamestu köflum landsins, sérstaklega frá Kaldárseli að Krísuvíkurvegi, og gott að hann er á dagskrá 2019–2023. Reykjanesbrautin er stórhættuleg eins og hún er. Það eru komnar raufar í veginn og í mikilli rigningu er þetta stórhættulegur vegur.

Undir Markmið umferðaröryggisáætlunar segir, með leyfi forseta:

„ a. Að Ísland verði meðal fremstu Evrópuþjóða hvað varðar fjölda látinna og alvarlega slasaðra í umferðinni á hverja 100 þúsund íbúa.

b. Að látnum og alvarlega slösuðum fækki að jafnaði um 5% á ári.“

Á vegarkaflanum frá Álftanesvegi að Lækjargötu, einum af slysamestu köflum landsins, hafa orðið og verða skelfileg umferðarslys. Þar þarf líka að taka til. Þess vegna spyr ég: Hversu mörg slys þurfa að vera áður en það verður gert? Hver er áætlunin um það? Jú, ekkert á að gera fyrr en eftir 2024–2028, og það á einum slysamesta vegarkafla landsins. Hvernig samræmist þetta því að draga úr fjölda látinna og fækka slysum ef ekkert á að gera fyrr en í fyrsta lagi eftir fimm ár á þeim slysakafla?

Þá er fyrst eftir 2024–2028 gert ráð fyrir að lækka Reykjanesbraut á þeim kafla og setja mislæg vegamót á Reykjanesveg við Hafnarfjarðarveg, Fjarðarhraun og Lækjargötu. Það á að vera á dagskrá strax og getur ekki beðið til 2024. Um það vitna umferðarslysatölur.

Við verðum að átta okkur á því að nú er sá tími kominn að við erum einn til tvo klukkutíma úr Hafnarfirði til Reykjavíkur. Og svo aftur einn til einn og hálfan tíma frá Reykjavík til Hafnarfjarðar með tilheyrandi mengun. Það er óásættanlegt að svo verði næstu 20–30 árin. Ég bara trúi því ekki. Ég skil ekki af hverju við erum ekki byrjuð að taka á því vandamáli því að það þarf að gera strax. Spáið í mengunina sem slík töf veldur, þegar tugþúsundir bifreiða sniglast áfram í einn til tvo tíma tvisvar á dag.

Í samgönguáætlun segir að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum. Þetta er brandari miðað við það að tugþúsundir bíla eiga að sniglast áfram tvisvar á dag næstu 20–30 árin með tilheyrandi mengun.

Búið er að taka af dagskrá ofanbyggðaveg sem átti að leysa stóran hluta af vanda Reykjanesbrautar. Nú fer fólk flóttamannaveginn svokallaða sem er við Urriðaholt til að sleppa við umferðarstíflur á morgnanna. Þá fer fólk í örvæntingu sinni líka flóttamannanes, sem er Arnarnesið, keyrir þar yfir hæðina til að sleppa. Fljótlega verður það einnig flóttamannagjá, sem er að fara upp Kópavogsnesið til að sleppa við gjána.

Þetta er alveg með ólíkindum. Það virðist engin lausn vera á því að leysa þetta. Ég spyr samgönguráðherra hvort hann sé með einhverja frábæra lausn á því vandamáli. Er ekki kominn tími til að við finnum lausn á því að fólk sé fast þarna kvölds og morgna? Svo horfir maður upp á fólk reyna í örvæntingu sinni að finna flóttaleið út úr ógöngunum, reyna að stytta leiðina. En það er ekki á dagskrá að gera neitt í því fyrr en ef einhvern tíma.

Þá er Kjalarnes frá Mosfellsbæ að Hvalfjarðargöngum einnig á dagskrá 2019–2023 og er það vel. En fjöldi ferðamanna undanfarin ár sem fara í gegnum Leifsstöð er fordæmalaus. Sú staðreynd að svo mikil fjölgun íbúa hefur verið á Reykjanesi og í Hafnarfirði hefur leitt til þess að umferð um Reykjanesbraut hefur margfaldast. Það er álag á einföldu brautina í gegnum Hafnarfjörð og við þurfum að átta okkur á því að það er ekki fyrr en eftir 2024 sem á að taka á vegarkaflanum frá Krísuvík að Hvassahrauni. Það er alveg stórfurðulegt.

Það er alltaf verið að tala um að slys kosti svo mikið, tugi ef ekki hundruð milljarða. Þarna eru stórir slysabrunnar og við verðum að byrgja þá. En við verðum líka að hugsa rökrétt og komst út úr þeirri hugsun að eðlilegt sé að við séum að sitja föst í umferð frá Reykjavík til Hafnarfjarðar dag eftir dag. Ég veit að reynt hefur verið að finna lausnir á svona vandamálum erlendis. Ég heyrði um Noreg þar sem er svipað vandamál. Þeir eru með strætóleiðir sem eru sérleiðir þar sem er mikil umferð og stífla verður á vegum og svo leyfa þeir tveimur eða fleirum í bíl að nota þá leið, en auðvitað er strætó í forgangi ef út í það er farið.

Við verðum að finna einhverja slíka leið. Það er ekki ásættanlegt að hafa hlutina svona næstu 30 árin. Við verðum að átta okkur á því að slysin sem verða t.d. á veginum frá Álftanesi að Lækjargötu í Hafnarfirði eru alveg ótrúlega mörg. Þetta er gersamlega sprunginn vegarkafli. Hvert slys sem verður þar er einu slysi of mikið. Látið mig vita það. Það er ömurlegt að það skulu verða slys eftir slys á sömu gatnamótunum og ekkert er gert. Menn ýta málunum á undan sér til næstu 5, 10, 15 ára og hugsa með sér: Allt í lagi, látum bara slysin verða. Er það réttlætanlegt? Ég segi nei. Ég er viss um að þeir sem eiga eftir að lenda í slysum á þeim kafla sætta sig ekki við það og þeir sem hafa lent í slysi á þeim kafla eru líka ósáttir.

Það er annað sem mig langar að benda á. Ég fór norður á Strandir í sumar og á Vestfirðina og þar blasti við stórfurðulegur bútasaumur, einn mesti bútasaumskafli sem ég hef nokkurn tíma séð. Ég spyr: Hverjum dettur í hug að setja svona bútasaum kafla eftir kafla? Það kemur kafli af malbiki, kafli af möl sem ekki er akandi og svo kemur aftur kafli af malbiki. Það er farið með tæki og tól fram og til baka. Hvað kostar það? Þetta er glórulaust. Síðan fer maður Vestfirðina, Hrafnsfjarðarheiðina, sér göngin sem eiga að fara að koma, kemur upp á Dynjandisheiði og þá er þar annar farartálmi. Göngin eru því í sjálfu lítil lausn nema vegarkaflinn upp Dynjandisheiðina verði gerður almennilegur, en ég segi fyrir mitt leyti að ég sé ekki hvernig hægt verður að gera þann kafla þannig að hann sé fær allan veturinn. Mér finnst hann yfirleitt stórhættulegur.

Svo eru það sunnanverðir Vestfirðir. Þar er bútasaumur og ekkert virðist ganga.

Síðan er eitt sem þarf að taka á, sem við virðumst aldrei ætla að geta náð, og það eru einbreiðar brýr. Það virðist ekkert ætla að ganga með að eyða þeim á hringvegi landsins. Ég vona heitt og innilega að það verði tekið til og séð til þess að þeim verði eytt.