149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[18:12]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér tvær þingsályktunartillögur, þ.e. samgönguáætlun 2019–2023 og 2019–2033. Það er kannski öfugt við það sem margir myndu ætla en það hefur býsna mikið gerst í samgöngumálum, a.m.k. þann tíma sem ég hef sjálfur verið að nota vegi landsins, en auðvitað erum við öll á því að það mætti gerast ögn hraðar.

Við þingmenn erum flestöll nýbúin að vera í kjördæmum okkar í kjördæmaviku og höfum heyrt sjónarmið íbúa og sveitarstjórnarmanna á því hvaða verkefni eru brýn á hverjum stað. Í mínu kjördæmi í Suðvesturkjördæmi eru samgöngumálin það sem langflestir sveitarstjórnarmenn vekja máls á í samtölum við þingmenn og kannski ekki að ófyrirsynju. Samgöngumál eru eins og hefur komið fram ekki nein smámál, þau eru ekki bara spurning um að komast frá A til B, þau geta verið lífsspursmál, þau geta verið heilbrigðismál; hvernig náum við að komast á milli staða þegar mest ríður á.

Mig langar í þessu samhengi að telja upp nokkrar af þeim vegaframkvæmdum sem fyrirhugaðar eru í Suðvesturkjördæmi, eða nálægt því, í samgönguáætlun. Það er til að mynda Arnarnesvegurinn sem verður ein af þeim samgönguæðum sem munu bæta umferðarflæði í gegnum Garðabæ, Kópavog og Reykjavík. Það er stokkur í gegnum Garðabæ sem mun fría upp töluvert af landi í Garðabæ til útivistar og einnig til bygginga. Það er tvöföldun Reykjanesbrautar sunnan Hafnarfjarðar. Síðan er það hringvegurinn í gegnum Kópavog.

Það er ekki tilviljun að ég tel þessar framkvæmdir upp í þessari röð. Þetta eru allt framkvæmdir sem eru á seinni hluta áætlunarinnar, þ.e. eftir 2024. Eins og hefur raunar komið fram hjá fleiri þingmönnum er það ákveðið áhyggjuefni að þetta fjölmenna svæði skuli vera svona afturþungt í áætluninni hvað þetta varðar.

Þó svo að sveitarfélögin hafi svo sem misgóða reynslu af því þá velti ég fyrir mér hvort einhver vinna sé í gangi í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu með sveitarfélögunum um það hvort sveitarfélögin geti liðkað til með fjármögnun á einhverjum verkefnum og flýtt þannig framkvæmdum, þótt til gamans megi geta þess að tíu eða tólf ára gömul framkvæmd í Kópavogi er enn þá inni á samgönguáætlun þar sem ríkið er loksins núna, á þrettánda ári eftir að framkvæmdin var gerð, að borga Kópavogsbæ fyrir þá framkvæmd, sem voru lítil undirgöng undir Reykjanesbraut eins og menn þekkja. Loksins er hún komin þar. Ég veit að sveitarfélögin gætu talið sig vera svolítið brennd af slíku, en ég held engu að síður að þetta sé eitthvað sem eigi að skoða í fullri alvöru, alveg eins og að skoða í fullri alvöru hvort hægt sé að flýta framkvæmdum með til að mynda ytri fjármögnun einhverra einkaaðila, þó þannig að það sé ekki gert nema það séu augljósar aðrar leiðir sem fólk getur farið.

Aðrar framkvæmdir sem þó eru á fyrri hluta samgönguáætlunar og ber að þakka fyrir eins og tvöföldunin í gegnum Mosfellsbæ og 2+2 vegur á Kjalarnesi eru einnig afar brýnar. Þetta er nefnilega býsna mikilvægt fyrir samfélag eins og Ísland þar sem einn burðarásinn í okkar hagkerfi byggir í rauninni að stærstum hluta til á samgöngum, þ.e. ferðaþjónustan. Það er ekki léttvægt eða lítið mál á hvaða hraða eða í hvaða forgangi við byggjum upp samgöngur og mikilvægt fyrir okkur öll að hafa það í huga.

Ég get ekki komið í ræðustól og talað um samgönguáætlun öðruvísi en að nefna almenningssamgöngur eins og fleiri þingmenn hafa raunar gert. Almenningssamgöngur eru ekki bara mikilvægar í því tilliti að þær létti álagi af vegum og minnki þörfina fyrir að stækka vegakerfið í sífellu, heldur eru þær mikið umhverfismál. Það er því fagnaðarefni að haldið er áfram að setja fjármagn í almenningssamgöngur þótt auðvitað mætti það alltaf vera meira. Það er alltaf hægt að ræða það á þeim forsendum.

Eins sakna ég svolítið úr samgönguáætluninni, mér finnst hlutur hjólreiða í henni ekki nægilega mikill þó að vissulega sé þeirra getið. Ég get lofað hv. þingmönnum því að þeir eiga eftir að heyra mig oft tala um hjólreiðar. Ég myndi t.d. vilja að það væri beinlínis skrifað inn í samgönguáætlun að þegar gerðar eru nýframkvæmdir í samgöngum, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur út um allt land, sé gert ráð fyrir því að gerðir séu hjólreiðastígar jafnhliða. Þetta er núna í nýframkvæmdum en ekki þegar um er að ræða minni háttar endurbætur eða endurbætur á vegum. Þetta er gríðarlega mikilvægt vegna þess að þetta er líka einn þátturinn í því að gera landið að raunverulegum valkosti fyrir þann stóra hóp ferðamanna sem ferðast um heiminn á reiðhjólum. Hér á höfuðborgarsvæðinu er þetta líka mikilvægt, sérstaklega fyrir þau okkar sem veljum reiðhjól til þess að komast í og úr vinnu. Þar ætti ríkisvaldið einnig að koma sterkt inn í.

Mig langar aðeins að tæpa á því sem nokkrir ræðumenn hafa einnig komið inn á hér, þ.e. fjármögnun vegakerfisins. Hvernig ætlum við í framtíðinni þegar við förum úr kolefnaeldsneytinu smátt og smátt, sem hefur í rauninni verið meginleiðin til þess að fjármagna vegakerfið, að fjármagna vegakerfið þegar allir bílar eru komnir á innlent eldsneyti eða innlendan orkugjafa öllu heldur? Ég held að sú umræða sé í rauninni efni í samfélagssátt. Hvernig ætlum við að tryggja að hið opinbera fái áfram fjármagn til þess að halda við vegakerfinu og almenningssamgöngum þegar andlagið til greiðslna til ríkisins hverfur í burtu smátt og smátt? Þessa umræðu þurfum við að taka, og eins og einhverjir ræðumenn hafa komið inn á áður, ekki seinna en strax.

Herra forseti. Af því að ég hef eina mínútu enn af mínum tíma þá langar mig að nefna eitt atriði í blálokin sem er ekki mikið talað um í sambandi við samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, en það er fleytitími. Fleytitími er það þegar stór samfélög ákveða að fyrirtæki, stofnanir, skólar o.s.frv. hefji starfsemina á mismunandi tíma þannig að ekki séu allir að nota vegakerfið nákvæmlega sama tíma, t.d. milli átta og níu á morgnana eða hvað það er. Besta sönnunin á því að fleytitími virkar sést til að mynda þá daga á vorin þegar framhaldsskólanemar eru í prófum og nemendur eða kennarar framhaldsskóla fara ekki með einkabíl í vinnuna. Þá er öll umferðin miklu liðugri þó að það séu ekki nema 1–2% allra á vegunum sem taka sér hlé þennan tíma. Ég vil hvetja ráðuneytið til þess að fara að skoða þessa leið.