149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[18:32]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Í þeirri samgönguáætlun sem við ræðum nú kennir ýmissa grasa. Það væri að æra óstöðugan að fara í einstaka framkvæmdir eða ræða einstök verkefni. Við lestur hennar kemur í ljós að hæstv. samgönguráðherra hefur haft verðugt verkefni að setja þetta saman, samræma öll þau sjónarmið sem eru uppi og forgangsraða með réttum hætti.

Það verður að segjast að heilt yfir hefur honum tekist býsna ágætlega til enda augljóst um öll þau atriði sem þarna koma fram að það er breið og mikil samstaða um mikilvægi þeirra verkefna, hvort sem þau eru í flugsamgöngum, siglingum eða vegagerð.

Hæstv. samgönguráðherra er heldur ekki öfundsverður af því að búa í raunveruleikanum og þurfa að taka mið af honum, alla vega að taka mið af því að fimm ára áætlunin þurfi að vera í samræmi við ríkisfjármálaáætlun. Það er heiðarlegt og það er rétt að gera það. Ég hef ekkert út á það að setja í sjálfu sér. Staðan er eins og hún er og við verðum að vinna með það sem við höfum í höndunum.

Það er hins vegar ástæða til þess að ræða það við þingmenn í þessum sal hvernig hægt er að ná meiri árangri eða fara hraðar í þær framkvæmdir sem við vitum öll að eru svo nauðsynlegar. Ég heyri á mörgum ræðum sem fluttar hafa verið undir þessum dagskrárlið að þingmenn eru þeirrar skoðunar að að sjálfsögðu þurfi að ráðast fyrr í svo margar framkvæmdir. Þá skulum við ræða það mjög heiðarlega hvaða valkostir eru í boði, þ.e. áður en þingmenn fara að takast á, hver með sinn lista, hver með sín brýnu forgangsmál, um það hvernig þeir ætli að koma þessu öllu heim og saman. Við skulum aðeins ræða hvaða valkostir eru þá í boði.

Fyrsti valkosturinn er að við forgangsröðum með einhverjum öðrum hætti. Við getum þá haft val um að takast á um innri forgangsröðun verkefna og þá fjármuni sem settir eru í samgönguáætlunina eins og ríkisfjármálaáætlun gerir ráð fyrir, að við förum að færa alla þá peninga til. Það er ein leið. Við getum líka skoðað ytri forgangsröðun í ríkisfjármálum í heild sinni, við getum alveg rætt það heiðarlega hvort taka þurfi peninga úr öðrum málaflokkum og setja í samgönguáætlun. Það er vissulega valmöguleiki. Ég ætla ekki að nefna þann valmöguleika að við förum að auka ríkisútgjöld eða hækka álögur á fólk. Það er ekki valkostur í mínum huga.

En við höfum tvo aðra valkosti. Annar þeirra hefur verið nefndur hér fyrr í dag af ýmsum hv. þingmönnum. Hann er að þeir borgi sem nota, þ.e. að við tökum upp veggjöld og/eða ríkið fari í einhvers konar samvinnuleið, PPP-fjármögnunarverkefni, þar sem einkaaðilar og hið opinbera taka höndum saman, hið opinbera búi til einhvern ramma utan um framkvæmdir, og svo eru það einkaaðilar sem taka áhættuna af því að ráðast í slíkar framkvæmdir en það eru þá þeir sem nota þau mannvirki sem borga fyrir það.

Það er margt mjög skynsamlegt í slíkum hugmyndum. Ég held að við verðum að ná að tæma þá umræðu með einhverjum hætti og raunverulega átta okkur á því hvort þarna sé einhver valkostur sem við eigum velja. Ég held að það sé miklu heppilegra ef við ræðum þann valkost á annað borð að ríkið fari í svokallaða samvinnuleið, dreifi þannig áhættu, tryggi að fjármagn sé nýtt með skynsamlegum hætti eða skilvirkari, sem leiðir iðulega til betri niðurstöðu, að það sé í höndum einkaaðila en að ríkið taki alla áhættu af einstökum framkvæmdum. Hvalfjarðarmódelið er dæmi um það.

En það er enn annar valkostur sem ég tel að við ættum að gefa gaum. Hann er að skoða efnahagsreikning ríkisins. Skoða þær eignir sem ríkið er með bundið fé í, hvort sem það eru hlutabréf, stofnfé eða allar þær eignir ríkisins sem mér skilst að nemi yfir 800 milljörðum í fjárlagafrumvarpinu. Að hreinar eignir ríkisins í því tilliti séu um 400 milljarðar. Þar munar auðvitað mestu um eignarhlut ríkisins í viðskiptabönkunum tveimur.

Er ekki heiðarlegt af okkur að ræða það að minnsta kosti að skoða að umbreyta þessum eignum ríkisins úr því fjármagni sem þarna er bundið sem hlutafé og yfir í fjárfestingar í mikilvægum innviðamannvirkjum? Það hlýtur að koma til álita.

Ég ætla að nefna í þessari ræðu hér, án þess að fara inn í einstakar framkvæmdir, að þær áherslur sem hæstv. samgönguráðherra er með sem snúa að öryggi eru mjög góðar. Nefni ég þá sérstaklega sveitavegina sem Vegagerðin hefur áform um að fara hraðar í að laga. Í því sambandi bendi ég á að ég hef beint fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra sem snýr að skólaakstri barna á hinum ömurlegu malarvegum sem eru svo víða í sveitum landsins. Það er atriði sem ég tel að við ættum að gefa gaum og hæstv. samgöngunefnd þyrfti að fara ofan í.

Ég ætla að ljúka þessu á því að velta upp einu atriði sem er óhjákvæmilegt að við ræðum í sambandi við samgönguáætlun. Ég hef nefnt það að áætlunin er að mörgu leyti raunhæf. Þarna eru þau verkefni sem við þurfum að ráðast í. Ég hef komið inn á hvaða leiðir eru í boði til að fara hraðar í þær framkvæmdir, hvernig við getum sett meiri fjármuni í þessi verkefni án þess að hætta á að ástunda óábyrga stýringu ríkisfjármála eða hækka álögur. En við erum með þessa fínu áætlun. Segjum að hún sé að öllu leyti fjármögnuð eins og við viljum hafa það. Þá er það spurningin: Hvernig ætlum við að komast í að framkvæma allt það sem þarf að framkvæma samkvæmt áætluninni?

Ég nefni það í ljósi nýliðinna atburða í stjórnsýslunni þar sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komst að þeirri niðurstöðu að mikill ágalli hafi verið við mat á umhverfisáhrifum af tiltekinni starfsemi í landinu. Við þekkjum það í gegnum árin hversu erfiðlega okkur hefur gengið að komast upp úr þeim hjólförum eða því drullufeni sem öll framkvæmdaáform í landinu geta lent í. Það væri auðvitað að æra óstöðugan að fara að nefna hér veginn um Gufudalssveit en það er sannarlega lexía sem við getum lært af að jafn brýn framkvæmd og vegurinn um Gufudalssveit er búin að vera í 20 ár á áætlun. Tuttugu ár og enn sér ekki fyrir endann á henni. Ég held að við þurfum að íhuga alvarlega ef við ætlum að ráðast í þessar stóru framkvæmdir hér á höfuðborgarsvæðinu eða víðs vegar um landið að við þurfum að endurskoða hvernig löggjöfin er um alla þá stjórnsýslu sem við höfum búið við. Hvernig stjórnvöld, stjórnsýslan, stjórnsýslustofnanirnar virka, hvernig þær hafa í hendi sér að taka matskenndar ákvarðanir um veigamikla innviðauppbyggingu.

Ég segi: Fínt að hafa áætlunina. Við skulum ræða hana, og við skulum ræða lausnir til að finna fjármagn til að ráðast í þessi verkefni, en við hljótum líka að þurfa að svara spurningunni hvernig við ætlum þá að framkvæma allt sem þarf að framkvæma.