149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[18:42]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Samgönguáætlanir sem við ræðum hér eru góðra gjalda verðar svo langt sem þær ná. Því miður er það þannig að hæstv. samgönguráðherra er með hendur, a.m.k. aðra hönd, bundnar fyrir aftan bak og getur ekki gert allt sem við óskum eftir. Ég hef skilning á því og finnst þó eiginlega merkilegt hve mikið hefur tekist að spinna úr því sem hæstv. ráðherra fékk í efnivið.

Þó að rætur mínir liggi í sveitinni, í Skagafirði, hlýt ég sem þingmaður höfuðborgarsvæðisins að velta því fyrir mér hvernig þessi samgönguáætlun nýtist íbúum höfuðborgarsvæðisins og þá ekki síður Suðvesturkjördæmis — þó að mér finnist leiðinlegt að ræða einstök mál eins og þetta út frá kjördæmum því að ég hygg að það leiði okkur stundum á villigötur. En ég hef síðustu daga velt fyrir mér hvort það kunni að vera skynsamlegt til framtíðar að vera með tvískipta samgönguáætlun, þ.e. að leggja fram samgönguáætlun, a.m.k. á næstu árum, sem yrði sérstaklega fyrir höfuðborgarsvæðið og síðan aðra sem miðaði að samgöngum fyrir aðra landshluta.

Ástæðan fyrir því að ég velti þessu fyrir mér er sú að ástandið í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu er orðið þannig að ekki verður við unað. Það er illa hægt að ætlast til þess að íbúar hér, og þeir sem sækja höfuðborgarsvæðið heim, sætti sig við það ástand sem er nú í þeim málum. Þetta er farið að skerða lífsgæði fólks á suðvesturhorninu. Það eru skert lífsgæði að þurfa að eyða stöðugt lengri tíma á hverjum einasta degi í að koma sér til og frá vinnu frá heimili sínu. Það er tími sem er tekinn frá fjölskyldu, tími sem er tekinn frá áhugamálum o.s.frv. Ástandið í samgöngumálum er spurning um lífsgæði þeirra sem búa hér í mesta þéttbýlinu. En þetta er líka umhverfismál. Ég vil vekja athygli á því að það er umhverfismál að tryggja að samgöngur á höfuðborgarsvæðinu gangi greiðlega fyrir sig. Að menn séu ekki neyddir til að bíða tímunum saman í biðröðum, á ljósum, í umferðaröngþveiti sem skapast vegna þess að samgöngumannvirkin anna ekki þeirri umferð sem þau eiga að gera. Ég held því að það sé a.m.k. þess virði að velta því fyrir sér hvort ekki eigi að hefja sérstaka vinnu við að gera sjálfstæða samgönguáætlun fyrir höfuðborgarsvæðið.

Nú er það rétt að við horfum fram á það að leggja þarf verulega fjárfestingu í innviði. Þar eru samgöngurnar gríðarlega mikilvægar en innviðirnir eru fleiri, svo sem menntakerfið og ekki má gleyma heilbrigðiskerfinu. Ég hef haldið því fram hér í ræðustól, og byggi á gögnum annarra og mér vitrari manna, að við séum með uppsafnaða þörf upp á 500 milljarða næstu tíu árin a.m.k. Það er bara svona til að ná í skottið á okkur. Þá er ekki tekið tillit til þess sem við þurfum að gera þegar kemur að nýfjárfestingum. Það eru þá kannski samtals 700 milljarðar sem við horfum fram á á tíu árum, 70 milljarðar á ári. Stór hluti af því er auðvitað í samgöngum.

Á sama tíma og við höfum verið að safna aðeins upp þörf á innviðafjárfestingum höfum við náð gríðarlegum árangri í að lækka skuldir ríkissjóðs. Við höfum eiginlega náð alveg stórkostlegum árangri. Í lok næsta árs verða skuldir ríkisins 670 milljörðum lægri en þær voru þegar þær voru hæstar árið 2012. Það hefur gert að verkum að halda má því fram að ríkissjóður hafi sparað sér, í vaxta- og fjármagnskostnað, miðað við þann kostnað sem var árið 2012, um það bil 138 milljarða á þessum tíma. Þetta er um það bil 30% hærri fjárhæð en lagt er til að við verjum til vegamála hér á næstu fimm árum.

Það skiptir miklu að við tryggjum öflugt samgöngukerfi. Það er ekki bara spurning um lífsgæði eða lífskjör almennings heldur um samkeppnishæfni atvinnulífsins. Þess vegna þurfum við að taka okkur á í þeim efnum. Hér hafa menn verið að velta því fyrir sér hvernig við getum fjármagnað þær framkvæmdir sem við vitum að ráðast þarf í, og hraðar en hér er lagt til. Þá hafa menn fyrst og fremst staldrað við veggjöld. Ég er í sjálfu sér hrifinn af þeirri hugmyndafræði að menn borgi fyrir það sem þeir nota. Að því leyti er skynsamlegt að innleiða veggjöld í einhverjum mæli, jafnvel í heild sinni. En slík umræða verður líka að taka mið af því að við leggjum þegar töluverðar álögur á bíleigendur. Ákvörðun um veggjöld hlýtur þannig að endurspeglast í því að við endurskoðum allt gjalda- og skattakerfi á umferðina. Ég veit að sú vinna er þegar hafin. Mér finnst að við getum ekki slitið þetta tvennt úr samhengi.

Ég er líka á svipuðum nótum og félagi minn, hv. þm. Teitur Björn Einarsson, þegar ég segi: Bíddu, áður en ég fer að velta því fyrir mér að auka álögur á almenning vil ég fá svör við þeirri spurningu hvort við nýtum eignir ríkisins með réttum hætti. Er það þannig, og erum við öll sannfærð um það hér í þessum sal, að við séum að nýta eignir ríkisins með sem bestum hætti þannig að nýting þeirra hafi sem mest jákvæð áhrif á daglegt líf og lífskjör almennings? Ég held ekki. Ég held að við bætum lífskjör almennings meira með því t.d. að losa fjármuni sem eru bundnir í fjármálakerfinu, ég tala nú ekki um í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Ég óska eftir því að þegar menn fara að velta því fyrir sér að taka upp veggjöld að þá skoði þeir efnahagsreikning ríkissjóðs og velti fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegt og rétt að við förum í það að umbreyta eignum ríkisins, (Forseti hringir.) m.a. Flugstöð Leifs Eiríkssonar, í mislæg gatnamót hér á höfuðborgarsvæðinu eða hluta af eignum okkar í íslensku fjármálakerfi í tvöföldun vega út frá höfuðborginni.