149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[18:52]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum eina af mikilvægari áætlunum sem koma til umræðu hér, samgönguáætlun. Ég vil byrja á því að óska hæstv. samgönguráðherra til hamingju með að leggja þessa áætlun fram. Mér finnst líka gott að sjá að í þessari áætlun, sem og í öðrum áætlunum sem við vinnum með, er horft til lengri tíma. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Við höfum rætt lengi mikilvægi þess að horfa lengra fram í tímann. Þess vegna er gott að sjá þessar tvær áætlanir, aðra til ársins 2023 og hina til ársins 2033.

Við erum öll sammála um hversu mikilvægir samgönguinnviðir eru fyrir uppbyggingu á þessari eyju okkar og hversu mikilvægt það er fyrir landsbyggðina alla að samgöngur séu góðar. Þetta eru grunninnviðirnir. Flestir sem hér hafa stigið í pontu til að ræða samgönguáætlun hafa horft svolítið inn í sitt kjördæmi, ég get ekki brugðist ykkur með því að gera ekki slíkt hið sama.

Þá langar mig að rifja upp, virðulegi forseti, að ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra sem gekk út á að óska eftir greiningu á því fjármagni sem farið hefði í samgöngumannvirki á síðustu tíu árum. Ég bað um að það yrði birt á verðlagi dagsins í dag þannig að það væri samanburðarhæft og að það yrði greint eftir kjördæmum. Mér barst svar þann 18. apríl sl. á þskj. 782. Nú er ég bara að horfa á nýframkvæmdir en í svarinu birtust líka upplýsingar um framkvæmdir á vegum flugsins og svo voru líka viðhaldsliðir þar inni. Þegar kom að nýframkvæmdaliðunum voru einhverjir liðir ekki brotnir niður á kjördæmi, en velflestir voru það.

Mig langar að nefna það hér að á síðustu tíu árum, ef ég tek jarðgöng með í þá umræðu, hafa 20% af öllu nýframkvæmdafé við vegasamgöngur farið til Suðurkjördæmis, 11% til Suðvesturkjördæmis, 5% til Reykjavíkurkjördæmanna, 29% til Norðvesturkjördæmis og 34% til Norðausturkjördæmis. Þarna fara sem sagt 16% til höfuðborgarsvæðisins þar sem 70% landsmanna búa, eða þar um bil, og 90% allra ferðamanna sem heimsækja landið fara líka um höfuðborgarsvæðið. Ég velti því fyrir mér hvort við þurfum ekki að hugsa þessa nálgun aðeins. Ég tók eftir því að hv. þm. Óli Björn Kárason, sem var í púlti á undan mér, nefndi hvort við þyrftum að fara að horfa á sérstaka samgönguáætlun fyrir höfuðborgarsvæðið. Ég veit ekki hvort það er leiðin, en ég óska þess alla vega að hv. umhverfis- og samgöngunefnd ræði þessa liði aðeins þegar þau taka samgönguáætlunina fyrir.

Að þessu sögðu ætla ég líka að segja að kannski er svona samanburður ekki alltaf sanngjarn. Það er ekki þannig að ég, sem bý hér á höfuðborgarsvæðinu, vilji ekki að fjármunir fari í uppbyggingu samgöngumannvirkja úti á landi. Ég held að það skipti mig alveg jafn miklu máli og íbúa á landsbyggðinni. Að sama skapi held ég líka að það skipti íbúa á landsbyggðinni mjög miklu máli að fjármunir fari í samgöngumannvirki hér á höfuðborgarsvæðinu því að öll eigum við þessa höfuðborg. Ég held að full ástæða sé til þess að horfa aðeins á þessa þætti.

Þá langar mig að biðja ráðherra að bregðast aðeins við því hér í ræðu sinni á eftir hvernig menn hafi nálgast þær áætlanir sem SSH hefur lagt fram. Nú hefur SSH, eða Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, farið í mjög ítarlegar umferðargreiningar í samstarfi við Vegagerðina og samgönguráðuneytið og lagt fram tillögur þar að lútandi. Við erum að tala um að greiða fyrir umferð með ljósastýringum, sem er tiltölulega ódýr leið. Ég sé að minnst er á það í þessari áætlun, fjármunir eru settir í að greiða fyrir umferð hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er fleira í því. Það eru líka framkvæmdir við stofnvegakerfið. Mér þykir miður að sjá að þær eru langflestar í langtímaáætluninni á seinni stigum þessarar áætlunar, og því kannski óvíst með hvaða hætti við getum fjármagnað þær framkvæmdir.

Þá vil ég minnast á að í þessum áætlunum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu — sem ég vil taka fram að er þverpólitísk vinna allra sveitarfélaga og allra flokka sem komið hafa að bæjarstjórnarborðum í þessum sveitarfélögum og myndað svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins — er bæði talað um mikilvægar stofnvegaframkvæmdir og líka eflingu almenningssamgangna með borgarlínu. Það hryggir mig að ekki sé fastar tekið á því í þessari samgönguáætlun hvernig við ætlum að nálgast það verkefni. Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti brugðist við því í ræðu sinni síðar.

Virðulegi forseti. Er þetta allur tíminn sem ég hef?

(Forseti (ÞorS): Þetta er allur tíminn sem þingmaðurinn hefur.)

Ég ætlaði nú að fara yfir miklu fleiri þætti. Ef ég reyni að taka þetta aðeins saman þá held ég að það sé mjög mikilvægt, þegar við horfum á höfuðborgarsvæðið sérstaklega, að vera í góðu samstarfi við sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu. Þau hafa lagt umtalsvert mikla vinnu í þessar áætlanir sínar. Þær byggjast á mannfjöldaspá og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Til ársins 2040 er áætlað að hér á höfuðborgarsvæðinu fjölgi íbúum um 70.000. Seinni hluti áætlunarinnar nær til ársins 2033. Það er ekki eins og við séum, þegar við horfum til framtíðar, að horfa á það hvaða verkefni, ögranir, við er að glíma í vegakerfinu á höfuðborgarsvæðinu í dag, heldur verður vandinn orðinn enn meiri.

Mig langar líka að heyra ögn meira frá ráðherranum um borgarlínuna. Henni hefur verið lýst sem hágæðaalmenningssamgöngukerfi en er þó ekki flóknara en strætisvagn sem keyrir í sérrými. Við erum ekki að tala um lestir á teinum. Við erum ekki að tala um neitt í líkingu við það sem við sjáum í mörgum borgum í kringum okkur. Við erum í raun bara að tala um strætisvagn sem keyrir í sérrými. Það er hagkvæmara að reka almenningssamgönguþjónustu í sérrými, þá fer minni kostnaður í að bíða á ljósum og annað þess háttar. Hér er fjármagn sett í almenningssamgöngur og eru markmið þar að lútandi ágæt. Einn af þeim liðum sem nefndir eru er efling almenningssamgangna og talað er um deilihagkerfi í samgöngum, sem ég tel mjög mikilvægt. Mig langar líka að hvetja hæstv. ráðherra til dáða þegar við horfum til framtíðar, hvernig Ísland getur orðið til fyrirmyndar í að taka á móti þeirri þróun sem við sjáum fyrir okkur í samgöngum, þ.e. sjálfkeyrandi bílum.

Þegar horft er til fyrri hluta áætlunarinnar held ég að við séum að tala um fræga milljarðinn þegar kemur að almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Nú nota ég orðalagið „frægi milljarðurinn“ en þegar þessi samningur var gerður á sínum tíma var alltaf talað um milljarð. Það varð reyndar aldrei milljarður þá heldur lagði ríkið um 900 milljónir til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Nú sé ég samkvæmt þessari áætlun að þetta er rétt rúmur milljarður, það er áætlun næstu árin. Samkvæmt samningnum, sem gerður var við sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu, var samt alltaf gert ráð fyrir að þessi fjárhæð tæki breytingum og var svokölluð strætóvísitala notuð þar sem horft var á kostnað við hækkun olíuverðs og launavísitölu. Ég held að ástæða væri til að nefndin legðist sérstaklega yfir það hvort þessi tala þurfi ekki einfaldlega að vera hærri svo að ríkið gæti staðið við þá samninga sem það hefur þegar gert hvað þetta varðar.

Ég held líka að við þurfum að horfa til enn frekari fjárfestinga í þessum málum. Við höfum nýlega séð metnaðarfulla áætlun ríkisstjórnarinnar þegar kemur að loftslagsmálum. Ég held að við séum öll sammála um mikilvægi orkuskipta í samgöngum og þess að bjóða upp á betri almenningssamgöngur. Það skapar (Forseti hringir.) tækifæri og fleiri kjósa þá kannski að fara þá leið sem er mjög umhverfisvænt.

Nú er tíminn liðinn, virðulegur forseti. Hann er augljóslega allt of stuttur til að ræða svona stórt og mikilvægt plagg.