Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[19:05]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég tek undir það. Ég hef verulegar áhyggjur af því að þessar mikilvægu framkvæmdir séu þarna á seinni stigum. Áttum okkur líka á því að þessar framkvæmdir eru eiginlega orðnar nauðsynlegar í dag, tala nú ekki um Arnarnesveginn og í rauninni líka stokkinn í Garðabæ og það sem þarf að gera þarf í Hafnarfirði. Þá erum við líka að horfa inn í framtíðina þegar við verðum orðin enn fleiri.

Ég hef svolitlar áhyggjur af því að þetta sé á seinni stigunum. Ég er svolítið skotin í þeim hugmyndum sem sveitarstjórnarmenn til að mynda í Garðabæ hafa nefnt við okkur þingmenn. Þeir vilji fara í einhvers konar tilraunaverkefni þar að lútandi, þ.e. fara í einhvers konar framkvæmdir og samstarf við ríkið þannig að hægt væri að fjármagna þetta eða finna einhverjar leiðir til að afla fjármagns í verkefnið. Ég er sammála því. Ég held að við ættum að horfa út fyrir rammann í þessum efnum.

Ég þakka hv. þingmanni líka fyrir andsvarið. Það var eitt sem mér láðist að nefna í ræðunni minni, það varðar það fjármagn sem fer í hjólreiðastíga. Skrýtið að mér skuli hafa dottið það í hug þegar hv. þingmaður kom hér upp. Það fer vissulega fjármagn í hjólreiðastíga. Við höfum verið að gera það síðasta árið. Mér finnst ástæða til að nefna það hérna því að þetta er ekkert dúlluverkefni. Fólk hefur nefnilega stundum sagt: Já, já, setjum eitthvað smá í hjólreiðastíga. En þetta er alvöruferðamáti á höfuðborgarsvæðinu. Þegar við horfum til framtíðarinnar mun sífellt fleira fólk kjósa að nýta sér fjölbreyttan ferðamáta. Þess vegna er svo mikilvægt að við horfum á fjölbreytileikann í samgönguáætlun til lengri tíma. Það eru sumir sem munu alltaf vera á sínum einkabíl. Við verðum að tryggja öryggi á vegunum og greiðleika þegar kemur að því. En það eru aðrir sem kjósa að hjóla eða ganga og enn aðrir sem kjósa að nota almenningssamgöngur. Ég held að það sé okkar hlutverk að sjá til þess að framboðið (Forseti hringir.) sé til staðar, því að með réttu samblandi þessara framboða náum við meiri árangri (Forseti hringir.) hvað flæði varðar, öryggi og (Forseti hringir.) ekki síst loftslagsmálin.