Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[19:08]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svörin. Og jú, þingmanninum tókst að snerta hjólreiðastrenginn í hjarta mínu, það var fallegt. En eins og þingmaðurinn komst réttilega að orði eru hjólreiðar og hjólreiðastígar ekkert dúlluverkefni. Þetta er alvöru samgöngumáti og þó að það sé ekki farið að kroppa í mörg prósent enn sem komið er eru það einhverjir sem hjóla.

Mig langar hins vegar í seinna andsvari mínu að ræða aðeins við þingmanninn um verkefni sem ég nefndi aðeins í ræðu minni áðan, þ.e. fleytitíma, að stjórnvöld, jafnvel sveitarfélög og ríkið í samvinnu, og í samvinnu við opinberar stofnanir og þess háttar, taki það upp af einhverri alvöru að tryggja að opnunartímar og vinnutímar verði skaraðir í meira mæli en nú er þannig að vegakerfið okkar og samgöngunetið, til að mynda á höfuðborgarsvæðinu, nýtist betur. Það sé þá lengri tíma í umtalsverðri notkun en ekki alltaf í stíflu milli átta og níu eða sjö og níu og fjögur og sex um eftirmiðdaginn.

Til eru einhverjar rannsóknir eftir því sem mér skilst á þessu fyrirbæri. Hægt er að nota þetta til þess, ekki bara að bæta umferð heldur líka til að bæta loftgæði á höfuðborgarsvæðinu, þannig að það séu ekki, eins og einhverjir þingmenn nefndu fyrr í dag, þúsundir bifreiða í lausagangi tímunum saman, sem er ekki gott fyrir andrúmsloftið, þó að það vandamál muni náttúrlega lagast þegar við erum öll komin á rafmagnsbíla. En það er lengra í það.