Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[19:10]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef yfirleitt lagt mig fram um að vera frekar jákvæð manneskja þegar kemur að mörgum málum, en ég ætla bara að viðurkenna að ég er búin að gefast upp fyrir umræðunni um fleytitíma. Við erum búin að taka þá umræðu hér á höfuðborgarsvæðinu svo áratugum skiptir og mér finnst við annaðhvort ekki hafa náð neinum árangri eða bara náð eins langt og við mögulega getum hvað það varðar. Ég nefni þetta sérstaklega þar sem ég þekki vel til reksturs Strætó þar sem það hefur verið gert reglulega verið að biðja háskólana t.d. að byrja á mismunandi tímum. Ég held að það sé gert. Ég held að Landspítalinn sé bara þannig stofnun að það sé mjög erfitt að gera þetta. Ég sé að þetta er nefnt í samgönguáætluninni og er svo sem full ástæða til að skoða það þó að ég sé komin á þessa skoðun og hálfpartinn búin að gefast upp.

Þá langar mig að nefna annað sem ég held að skipti jafnvel meira máli, það er að við dreifum atvinnufyrirtækjum og stofnunum um höfuðborgarsvæðið, að við söfnum ekki saman öllum stærstu atvinnufyrirtækjunum á vestasta odda höfuðborgarsvæðisins. Það er náttúrlega algjörlega fáránlegt. Það þýðir auðvitað að allir koma inn á þetta svæði á ákveðnum tíma, sem er nú orðinn svolítið langur, hann er eiginlega frá sjö til hálf tíu nú orðið, og svo til baka seinni partinn.

Þetta hafa sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu líka rætt ítrekað en við virðumst ná tiltölulega litlum árangri hvað þessa umræðu varðar.

Þá ætla ég aftur að koma inn á það sem ég kom inn á áðan um borgarlínuna. Það er einfaldlega þannig að sveitarstjórnarfólk á höfuðborgarsvæðinu er búið að átta sig á því að það þarf að byggja upp einhverja innviði sem tryggja að fyrirtækin vilji staðsetja sig nálægt stofnæðum. Það er reynslan alls staðar sem við höfum skoðað, hvort sem það er í Danmörku, Ósló eða í öðrum borgum á Norðurlöndunum, að fyrirtækin vilja staðsetja sig hjá góðum samgönguæðum. Þegar búð er að fjárfesta í innviðum eins og sérakreinum fyrir strætó fyrir borgarlínu, þá eru (Forseti hringir.) meiri líkur á því að fyrirtækin og stofnanir ríkisins vonandi líka, tilbúin að dreifa sér (Forseti hringir.) yfir höfuðborgarsvæðið. Og þannig nýtum við líka innviðina betur í báðar áttir.