149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[19:23]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum samgönguáætlun til næstu fimm ára. Fram kom hjá hæstv. samgönguráðherra að sett er meira fé í þennan málaflokk og það er auðvitað mjög gott. Meira fé er sett til að mynda í Hafnabótasjóð sem hefur lengi verið mikil uppsöfnuð þörf fyrir. Það vantar eflaust enn þá meiri peninga í flugið til að viðhalda flugvöllum landsins og styrkja þá flugvelli sem eru ríkisstyrktir. En heilt yfir horfir samgönguáætlun til mikilla bóta.

Hvað sem verður um þær hugmyndir ráðherra og fleiri að koma á veggjöldum þá er ég tilbúin til að skoða það með jákvæðu hugarfari en vil sjá útfærslu á þeim hugmyndum áður en ég tjái mig mikið meira um það. Við vitum að í gegnum árin hafa verið tekin há gjöld af umferðinni og þeim sem nýta vegi landsins. Þær fjárhæðir hafa langt í frá skilað sér til uppbyggingar vegasamgangna í landinu. Það liggur fyrir tölulega séð. Segja má að vegasamgöngur eigi inni hjá ríkisvaldinu þær háu fjárhæðir sem hafa verið teknar af umferðinni í gegnum árin, hvort sem það er bensíngjald, olíugjald, kílómetragjald eða hvaðeina.

Ef ég horfi aðeins á kjördæmi mitt, Norðvesturkjördæmi, þá eru vegabætur í frumvarpinu mjög til góða. Vissulega er mjög mikil óánægja yfir því varðandi Dynjandisheiði og vegina í kringum nýju Dýrafjarðargöngin að ekki eigi að bjóða út það verkefni fyrr en að tilbúnum Dýrafjarðargöngum. Mér skilst að það eigi að bjóða út Dynjandisheiði arið 2024. Ég tel óásættanlegt að draga það svona lengi. Dýrafjarðargöngin eru dýr framkvæmd og nauðsynlegt að hægt sé að nýta þá miklu fjárfestingu sem þar er. Mjög mikilvægt er að nýta þá fjárfestingu sem og að samgöngur á milli sunnanverðra og norðanverðra Vestfjarða verði góðar í framhaldinu og það sem fyrst, því að gífurlegar fjárhæðir fara í samgöngubætur á því svæði. Atvinnulíf þarf á því að halda og öll samskipti. Við erum búin setja heilbrigðisstofnun undir einn hatt og sameina varðandi sýslumannsembættið og lögreglustjóraembættið og allt það og því ekki boðlegt að ekki verði hægt að fara þarna á milli þegar jarðgöngin eru tilbúin og þar verði áfram flöskuháls þangað til hægt er að ljúka uppbyggingu heilsársvegar á milli svæðanna.

Varðandi tengivegi vítt og breitt um landið er í mínu kjördæmi mjög hátt hlutfall af malarvegum sem eru tengivegir. Þá vil ég nefna staði eins og í Vestur-Húnavatnssýslu, Vatnsnesið, þar sem skólabörn þurfa að fara um á hverjum einasta degi, 50–60 km á malarvegum, og koma liggur við sjóveik heim eftir að hristast á vegum sem eru ekki boðlegir. Eftir að ferðamannastraumur jókst á svæðinu eru vegir þar hörmung á að líta.

Síðan eru það uppsveitir á Vesturlandi, Skógarstrandarvegurinn t.d. Þarna eru malarvegir sem fólk fer um reglulega til að sækja vinnu og skóla. Mér skilst að á ári hverju séu um 900 milljónir áætlaðar í tengivegi. Í kjördæmaviku voru þau mál mikið rædd og þar kom fram að mönnum þótti að að lágmarki þyrfti leggja 1,5 milljarða í tengivegi á ári til að byggja þá eitthvað upp. Menn horfðu mjög til þess að fara þá leið sem ég veit að er byrjað að vinna með hjá Vegagerðinni, um eina og hálfa breidd, og flýta þannig framkvæmdum á tengivegum sem eru allt of víða ekki boðlegir, hvorki fyrir heimafólk á svæðinu né aukinn ferðamannastraum vítt og breitt um landið.

Vegurinn um blessaða Gufudalssveitina er eilíft þrætuepli. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. samgönguráðherra að í samgönguáætlun eru Vestfirðir settir í forgang og það ber að virða. Einnig er horft til vega út frá höfuðborgarsvæðinu varðandi öryggissjónarmið og það ber líka að virða. En þrætunni um endanlegt vegarstæði í Gufudalssveit verður að linna. Þó að áætluninni sé gert ráð fyrir að mig minnir 6–7 milljörðum í þá framkvæmd vitum við ekki hvort af henni verður eða ekki vegna þess að þarna eru eilíf deilumál, ekki er búið að finna endanlegt vegarstæði, enn þá er verið að skoða möguleika á nýju vegstæði í staðinn fyrir að fara í gegnum Teigsskóg. Heimamenn eru ekki sammála. Þetta heldur áfram að ýtast áfram í kerfinu. Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig málinu verður lent og hvernig hægt verður að nýta þá miklu fjármuni sem ætlaðir eru í að ljúka vegaframkvæmdum á þjóðvegi 60.

En einhvern veginn verðum við að komast áfram, hvað sem þarf að gera. Ég hef ekki verið hrifin af lagasetningu en þolinmæði mín er á þrotum í þeim efnum, ég viðurkenni það hér og nú úr ræðustól. Fólk sem býr á þessu svæði þarf að nýta samgöngur til að sækja þjónustu á höfuðborgarsvæðið auk þess sem miklir fiskflutningar og þungaflutningar eru um svæðið og því ekki boðlegt að þetta sé eins og það er, varla fært yfir veturinn og á sumrin oft eitt drullusvað.

Eins og ég sagði í upphafi er margt gott í samgönguáætlun. Ég nefni varðandi almenningssamgöngur að í kjördæmi mínu í kjördæmaviku stóð það upp úr hjá öllum sveitarstjórnarmönnum að menn vildu halda áfram að byggja upp öflugar almenningssamgöngur á sínu svæði. Samningar á milli landshlutasamtaka og Vegagerðarinnar eru lausir um áramót. Beðið er um meira fjármagn til að styðja við áframhaldandi öflugar almenningssamgöngur á svæðinu. Það vilja allir halda áfram á þeirri braut, telja það mjög mikilvægt. Fara þarf vel yfir hvað þarf að gera til að þetta standi undir sér og líka til að styrkja sveitarfélögin svo að þau þurfi ekki að vera í mikilli samkeppni á þeim leiðum við einkageirann, hvernig sem hægt er að horfa til þess að styrkja þann þátt sem víða hefur verið til ákveðinna vandræða.

Ég ber vonir til þess að hægt verði að endurskoða ýmsa þætti í samgönguáætlun í nefndinni. Ég nefni líka Skógarstrandarveginn og áherslu á að byrjað verði fyrr á honum en gert er ráð fyrir í hinni annars ágætu áætlun.