149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og réttindi fatlaðs fólks.

[10:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á þeim enda þar sem hv. þingmaður kláraði og þakka honum fyrir spurninguna. Varðandi lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks finnst mér mikilvægt í pólitík almennt að við séum þannig innstillt að einu gildi hvaðan góðar hugmyndir koma. Þar að auki er sérstaklega um það fjallað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að tryggja bæði lögfestingu og framkvæmd samningsins. Ég tel að frumkvæði hv. þingmanns sé gott og mikilvægt og mun leggja lóð mitt á þær vogarskálar að Alþingi klári málið í þessari lotu. Ég á ekki sæti í velferðarnefnd en er með opin tengsl þangað inn.

Virðulegi forseti. Varðandi geðheilbrigðismálin almennt kom ég heim í gærkvöldi af tveggja daga ráðstefnu sem haldin var í London að frumkvæði bresku ríkisstjórnarinnar en með aðkomu OECD og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar undir yfirskriftinni Jöfnuður í geðheilbrigðismálum á 21. öld. Þangað komu fulltrúar 60 ríkja og óhætt að segja að Ísland stendur vel í samanburði við ríki sem eru að vinna sig út úr þeirri stöðu að fólk með geðsjúkdóma sé tjóðrað eða lokað inni í búrum. Samt þurfum við að gera betur og við stefnum öll í þá átt að mannréttindi séu meira höfð að leiðarljósi í allri geðheilbrigðisþjónustu, það skiptir gríðarlega miklu máli, og að við færum geðheilbrigðisþjónustuna nær fólkinu, ef svo má segja, með því að auka teymisvinnu í heilsugæslunni og aðkomu sálfræðinga í heilsugæslu. Það gerum við núna í samræmi við geðheilbrigðisáætlun sem Alþingi hefur samþykkt með sérstakar 650 millj. kr. eyrnamerktar þeirri styrkingu heilsugæslunnar í tillögu til fjárlaga.