149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

meðferð á erlendu vinnuafli.

[10:53]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni að það þarf harðari viðurlög þegar menn gerast ítrekað brotlegir eins og við sáum í þessum sjónvarpsþætti. Það hef ég sagt eftir þennan þátt. Það er ástæðan m.a. fyrir því að ég lagði þessa tillögu fram í ríkisstjórn fyrir að verða fjórum vikum síðan. Við eigum að grípa inn í þegar svona er. Það er þess vegna sem þessi tillaga var lögð fram. Það er þess vegna sem við erum að ráðast í þessa vegferð. Þetta á ekki að líðast og það hef ég alls staðar sagt. Ég veit að ég og hv. þingmaður erum sammála um það.

Ég vonast til þess að út úr þessu geti komið haldbærar tillögur sem við getum síðan sameinast um hér á Alþingi að setja í lög þannig að við getum eytt þessum vanda. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og fyrir eftirfylgnina í þessu máli sem er bara af hinu góða og er gríðarlega mikilvæg.