149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

andlát vegna ofneyslu lyfja.

[10:59]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir andsvarið. Ég túlkaði orð hennar, með fullri virðingu, nákvæmlega eins og þau voru sögð, ekki á neinn annan hátt. Hæstv. ráðherra verður að vanda orðavalið betur í pontu Alþingis ef á að túlka orð hennar einhvern veginn öðruvísi en þau eru matreidd.

Ég ætlaði að benda á að þegar við tölum um að 39 einstaklingar hafi látist hér af lyfjaeitrun þá er stærsti hlutinn af því fólki á biðlista eftir aðstoð og meðferðarúrræðum hjá SÁÁ. Það vantar nokkur hundruð milljónir inn í fjármálin hjá SÁÁ til að geta staðið undir þeirri þörf sem þar er, til að standa undir því sem kallað er eftir bæði í samfélaginu og af bestu sérfræðingum okkar.

Þá er spurningin: Er virkilega ekki hægt að koma til móts við og a.m.k. athuga hvort það yrði ekki til góðs að gefa betri kost og gefa fólkinu okkar meiri möguleika á því að komast fyrr í hjálpina en raun ber vitni?