149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

andlát vegna ofneyslu lyfja.

[11:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það verður hver að fljúga eins og hann er fiðraður. Mér finnst mikilvægt að umræðan um slík mál sé ekki í upphrópunarstíl heldur snúist frekar um að við horfum á verkefnið með þeim alvarlegu augum sem okkur ber.

Eitt af því sem er til skoðunar og ég hef áður rætt við hv. þingmann undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir eru meðferðarúrræði fyrir yngsta hópinn, þ.e. krakkana sem eru yngri en 18 ára. Komið hefur á daginn að sá hópur þarf sérstaka athygli og af þeim sökum höfum við, ég og hæstv. félagsmálaráðherra, freistað þess að stilla saman strengi betur en áður hefur lánast að gera. Þetta er alls staðar vandamál í stjórnsýslunni, sílóin og veggirnir milli ráðherra og ráðuneyta, en vegna þess að okkur finnst málið alvarlegt finnst okkur mikilvægt að stilla saman strengi bæði er varðar meðferðarúrræði og aðkomu og hlutverk barnaverndar á hverjum tíma. (Forseti hringir.) Það verkefni er í forgangi hjá báðum ráðuneytunum. Ég fullvissa hv. þingmann (Forseti hringir.) um að þau orð mín eru þannig að þau er ekki hægt að misskilja.