149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

ríkisfjármál.

[11:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegi forseti. Ég beini þessari spurningu minni frekar til varaformanns Sjálfstæðisflokksins en hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Nú, þegar tekið er að kólna í íslensku hagkerfi, eru vaxandi áhyggjur af því að tekjuforsendur fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar muni ekki ganga eftir. Þær byggðu enda á fordæmalausum hagvexti á komandi árum og á sama tíma væri afgangur ríkissjóðs minnkaður. Flokkur ráðherra hefur í gegnum tíðina talað fjálglega um ábyrgð í ríkisrekstri, báknið burt, að útgjöldum ríkissjóðs sé haldið í skefjum. En á 16 ára valdatíma flokksins á árunum 1991–2007 jukust ríkisútgjöld um 270 milljarða á föstu verðlagi, um nærri 70%.

Nú virðist stefnt að því að slá það met. Gangi ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar eftir munu ríkisútgjöld á tíu árum aukast um 350 milljarða á föstu verðlagi, um rúm 50%. Belgjum báknið á kannski betur við en báknið burt um stefnu flokksins.

Hv. þm. Óli Björn Kárason viðrar áhyggjur sínar af þeirri þróun og að flokkurinn þurfi að endurheimta traust sitt í meðhöndlun opinbers fjár í grein í Morgunblaðinu í þessari viku. Þar segir, með leyfi forseta:

„[F]orsenda þess er að kjörnir fulltrúar flokksins viðurkenni að þeir sofnuðu á verðinum og að ríkið — báknið — hafi þanist út á vakt flokksins.“

Hæstv. ráðherra hefur sjálf rætt nauðsyn ráðdeildar í ríkisrekstri og í nýlegri grein á sama vettvangi rökstuddi hún 70 millj. kr. afnám útgjalda til átaks til atvinnusköpunar m.a. með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Ég hef áður nefnt það á þessum vettvangi að mörgum þykir það gefa höggstað á ráðherra að útgjöld til málaflokka hans standi í stað, hvað þá að þau dragist saman.“

Á sama tíma hefur hæstv. fjármálaráðherra og formaður flokks hæstv. ráðherra hins vegar hreykt sér af því hversu mikið sé verið að auka ríkisútgjöldin í valdatíð þessarar ríkisstjórnar.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hver er stefna flokks ráðherra í fjármálum ríkissjóðs? Er það stefna flokksins að slá sín eigin met í útgjaldaaukningu?