149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

ríkisfjármál.

[11:04]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir áhugaverða, góða og skemmtilega fyrirspurn sem ég myndi fagna að fá sem oftast í þinginu. Það er alveg rétt að ríkisútgjöld hafa verið aukin mjög en það ber að horfa á það í hlutfalli við verga landsframleiðslu, þ.e. á meðan útgjöldin aukast ekki umfram það sem kakan stækkar er það þáttur sem við hljótum að horfa til. Okkur hefur samt tekist á sama tíma, undanfarin ár, að greiða niður u.þ.b. 600 milljarða af skuldum hins opinbera, sem ég tel líka góðan árangur. Ég myndi gjarnan vilja fjalla oftar um það hvort við eyðum of miklum peningum, í hvað þeir fara, hvort þeir eru allir á réttum stað. Þess vegna hef ég sjálf skrifað, bæði í þeirri grein sem hv. þingmaður vitnar til og áður, að aukin útgjöld jafngildi ekki alltaf betri þjónustu. Það er þáttur sem mér finnst við hér inni þurfa að ræða meira og oftar, að við getum ekki klappað okkur á bakið í hvert skipti sem við aukum útgjöld í einhverja málaflokka ef við erum þess ekki fullviss að það skili betri þjónustu.

Við erum auðvitað með þetta verkefni sem veittir eru fjármunir í og unnið er innan fjármálaráðuneytisins og mun taka um tvö ár; þar erum við að endurskoða þessi útgjöld ríkisins. Ég tel það verkefni ótrúlega mikilvægt. Ég held að það verkefni sem við erum að vinna með OECD, varðandi samkeppnismatið, sé hluti af þessu líka þar sem við förum inn í tvo geira. En þegar því er lokið vonast ég til þess að við séum að horfa á alla hina geirana líka með þessi gleraugu á okkur.

Mér þykja skrif Óla Björns Kárasonar í Morgunblaðinu alla jafna mjög góð, sérstaklega þegar hann fer inn á þessar slóðir, en ég nefni það samt að við þurfum að horfa í það í hvað peningarnir fara. Þegar við setjum aukna fjármuni í málaflokka sem bæta lífsgæði fólks sem býr í þessu landi af því að við erum að búa til meiri verðmæti líður mér miklu betur með slíka útgjaldaaukningu en ýmislegt annað. (Forseti hringir.)

En það er ótrúlega margt sem við getum gert betur í skilvirkni og útgjöldum hjá hinu opinbera.