149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

ríkisfjármál.

[11:06]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið við þessari krúttlegu fyrirspurn minni. (Gripið fram í.) Vandinn er auðvitað sá að þessi útgjaldaaukning er ósjálfbær. Hæstv. ráðherra vísar hér til þess að útgjöld séu ekki að aukast sem hlutfall af landsframleiðslu en það heitir sveiflujöfnun ríkisfjármála, þau hafa nefnilega haft tilhneigingu til að lækka sem hlutfall af landsframleiðslu á tímum efnahagslegs uppgangs. Hér er verið að auka þau í fyrsta skipti miðað við áform þessarar ríkisstjórnar inn í hagvaxtarskeið sem er ekki að raungerast. Við sjáum núna á degi hverjum í fréttaflutningi að þau áform um hagvöxt á komandi árum munu ekki ganga eftir. Ofan á þetta allt saman eru stórir útgjaldaliðir ófjármagnaðir í þessari sömu ríkisfjármálaáætlun. Það er ekki gert ráð fyrir neinu fjármagni í endurskoðun á lífeyriskerfi öryrkja, svo dæmi sé tekið. Það kom skýrt fram í umræðu í þessum sal um samgönguáætlun í gær að það vantar aukið fjármagn í samgöngumálin. Síðan er boðuð lenging á fæðingarorlofi sem kostar um (Forseti hringir.) 5 milljarða á ári, ekki er heldur að finna fjármagn í fjármálaáætluninni fyrir þeim áformum.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvaða skatta ætlar þessi ríkisstjórn að hækka til þess að fjármagna (Forseti hringir.) útgjaldaáform sín?