149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

málefni öryrkja.

[11:24]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það sem gefur manninum gríðarlegt forskot á aðrar dýrategundir er getan til að mynda fjölmenn samfélög sem geta sameinast um ákveðin grunngildi. Ég held að ekki sé til betri vitnisburður um samfélög en það hvernig við komum fram við þá sem veikast standa. Ísland er ríkt land, eitt það ríkasta í veröldinni, en hér koma sum börn í heiminn sem fyrirséð er að muni ekki geta séð fyrir sér sjálf og eru dæmd til fátæktar miðað við núverandi kerfi. Aðrir lenda svo í áföllum síðar á ævinni og þeirra bíða sömu örlög. Og líka barnanna þeirra í uppvextinum. Hversu óréttlátt er það, herra forseti?

Það er því ákveðinn vitnisburður um þessa ríkisstjórn að hún skuli ekki taka betur utan um þennan hóp, ef eitthvað er að marka fjárlög og fjármálaáætlun. Þessir 4 milljarðar sem hæstv. ráðherra talaði um áðan, og eiga að renna til öryrkja umfram fjölgun, duga einungis fyrir þriðjungi af því sem kostar að afnema svokallaða krónu á móti krónu skerðingu. Þar fyrir utan lætur ríkisstjórnin mörg mál sitja á hakanum, sem væri veruleg búbót í fyrir þennan hóp. Þar get ég nefnt húsnæðismálin sérstaklega, kostnaðarþátttöku í heilbrigðiskerfinu og ekki síst geðheilbrigðisþjónustu.

Herra forseti. Við eigum saman gríðarlega miklar og auðugar náttúruauðlindir. Fólk hér á landi sem ekki getur lagt mikið af mörkum sjálft á líka hluta af þeirri sameign. Það er engin ástæða til þess að fólk þurfi að fæðast til fátæktar á Íslandi.