149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

málefni öryrkja.

[11:26]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðmundi Inga fyrir umræðuna. Jafnframt vil ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir þau orð sem féllu áðan, en það var árið 2009 sem Jóhanna Sigurðardóttir setti reglur um skerðingar á bætur öryrkja sem við erum blóðug upp fyrir haus að reyna að koma af, svo að því sé haldið til haga. Við vísum skömminni í heimahagana með það.

Það er mjög mikilvægt að sú nefnd sem við hv. þingmaður og frummælandi í málinu erum í taki á þeim málum. Ég bind miklar vonir við niðurstöðu nefndarinnar, bæði um breytt framfærslukerfi og um að krónu á móti krónu skerðingin falli algjörlega út. Það hefur verið rætt í nefndinni og ég geri mér miklar vonir um að það skref náist strax um áramótin, en afar mikilvægt er að við náum þeim árangri um áramótin, að króna á móti krónu skerðingin falli út. Þetta hefur verið rætt í nefndinni og um það er góð samstaða og ég hef fullar væntingar til þess að skrefið náist um áramótin.

Ég hef líka talað um að mjög mikilvægt er að auka atvinnuþátttöku öryrkja. Ég sendi skrifstofustjóra Alþingis bréf og hvatti hann til að taka öryrkja í vinnu þegar mikil umræða var í blöðunum um að fólk með Downs-heilkenni fengi ekki vinnu. Ég hvatti hann til að taka slíkt fólk í vinnu. Ég þekki það að hafa verið með slíkt fólk í vinnu í 18 ár. Bréfið fór í ágúst, það eru engin svör. Ef þetta eru svörin sem ríkisstjórnin ætlar að sýna og ganga fram fyrir skjöldu (Forseti hringir.) líst mér ekki á blikuna, ekki ef við ætlum að auka atvinnuþátttöku fatlaðra á næstunni.