149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

málefni öryrkja.

[11:28]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir þessa mikilvægu umræðu. Málshefjandi leggur áherslu á krónu á móti krónu skerðingu, sem er mjög svo hamlandi og verður til þess að margir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar hafa engan eða lítinn ávinning af atvinnuþátttöku. Það má beinlínis halda því fram að núverandi fyrirkomulag geri lítið úr vinnu þessa fólks sem getur og vill leggja sitt af mörgum, því að þeir eru jú ófáir. Það verður einnig að nefna hér þann hluta örorkulífeyrisþega sem hefur náð að safna lífeyrisréttindum en nýtur ekki ávinnings af þeim réttindum vegna þessarar krónu á móti krónu skerðingar.

Það verður að búa svo um hnútana að fólk geti notið alls þess sem talið er eðlilegt, t.d. má nefna að aðrar tekjur skerðast, mæðra- og feðralaun, dánarbætur og úttekt séreignarsparnaðar, svo að eitthvað sé nefnt. Örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum með aðrar tekjur er því gert nær ómögulegt að bæta stöðu sína og er hægt að fullyrða að þessi skerðing heldur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum í fátækt. Við höfum oft talað um afnám krónu á móti krónu skerðingar og það hefur verið margrætt hér á undanförnum misserum. Því er kominn tími til raunverulegra aðgerða.

Ég hlustaði eftir orðum hæstv. ráðherra og finnst erfitt að skilja að fara þurfi í kerfisbreytingar á lífeyriskerfinu til þess að leiðrétta þetta, eins og kom hér fram í máli hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar, að ekki sé hægt að afnema krónu á móti krónu skerðingu. Ég skil hreinlega ekki hvernig þetta hangir saman og óska eftir því að það verði útlistað betur í seinna svari ráðherra.