149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

málefni öryrkja.

[11:34]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að hefja máls á því gríðarlega mikilvæga verkefni sem blasir við okkur á þinginu og mun vonandi ljúka í vetur. Þetta er endurskoðun sem hefur tekið allt of langan tíma. Öryrkjar sátu því miður eftir við endurskoðun almannatryggingalaganna árið 2016 og er alveg ljóst að þó að sú breyting sem þar var gerð á ellilífeyri hafi verið gagnrýnd fyrir margt styrkti hún í það minnsta stöðu þess hóps verulega og er orðið tímabært að ljúka slíkri endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu.

Það er auðvitað að mörgu að gæta. Hið augljósa er, og ég held að þverpólitísk samstaða sé um það í salnum, að afnema þarf krónu á móti krónu skerðinguna. Hún er mest vinnuletjandi, vinnuhamlandi eining þessa kerfis í dag og á sjálfsagt mjög ríkan þátt í því hversu erfitt er fyrir fólk á örorkulífeyri að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Í raun og veru er fólki refsað fyrir að vinna.

Ég hef ekki hitt eða rætt við neinn í þeim hópi sem ekki vill vera á vinnumarkaði ef hann mögulega getur en kerfið hreinlega letur en hvetur ekki til þess. Það er algjört frumskilyrði en hins vegar er ekki rétt að mínu viti, sem hér hefur komið fram, að ekki þurfi að endurskoða kerfið. Það er alveg ljóst að það er brot í framfærslumörkum við 75% örorkulífeyri í dag sem er mjög eðlilegt að verði endurskoðað, að það séu fleiri þrep í þessu því að alveg ljóst er að einstaklingur sem skilgreindur er með meira en 25% starfsgetu, sem sagt lægra en 75% örorkuhlutfall, getur ekki framfleytt sér á þeim stuðningi sem þar fæst.

Það þarf að efla geðheilbrigðismálin. Þar sjáum við beinlínis faraldur og við þurfum að leggja stóraukna áherslu á það. Við þurfum að horfa til fleiri þátta eins og hvernig við getum komið betur saman örorkulífeyriskerfinu okkar og góðu úrræði eins og VIRK, (Forseti hringir.) sem virðast ekki geta talað saman sem dregur úr ávinningi af starfsendurhæfingunni sem þar er unnin. Þetta er flókið viðfangsefni og ég bind miklar vonir (Forseti hringir.) við að sú endurskoðun sem er í gangi núna skili (Forseti hringir.) árangri. Ég hlakka til að taka þátt í að ljúka því verkefni í þessum sal þegar þar að kemur.