149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

málefni öryrkja.

[11:37]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Þessi vísa verður ekki nógu oft kveðin á meðan úrbæturnar eru ekki betri. Öryrkjar hafa verið skildir eftir, sá minnihlutahópur í samfélaginu sem á virkilega undir högg að sækja. Ætli króna á móti krónu skerðing sé ekki heimsmet eins og svo margt annað sem við eigum heimsmet í? Þetta er eini þjóðfélagshópurinn sem býr við slíka skerðingu, enda er Öryrkjabandalagið að fara í mál við ríkið núna vegna þeirrar miklu mismununar sem felst í skerðingunni.

Sennilega munu skaðabæturnar vega meira en það sem við hefðum getað gert fyrir langalöngu, þegar við afnámum slíka skerðingu á eldri borgara á sínum tíma.

En ég segi: Betur má ef duga skal. Flokkur fólksins kallar eftir 300 þús. kr. lágmarksframfærslu, skatta- og skerðingarlaust. Voru margir sem tóku þátt í því að vera með okkur á því frumvarpi? Nei. Ég bíð eftir að sjá hvort það kemst yfir höfuð í gegnum þingið þegar upp er staðið.

Ég hef ítrekað bent á, t.d. í þessari pontu, hvernig Svíar hafa gengið fram í því að reyna að hvetja þá öryrkja sem hafa líkamlega burði til þess að vinna en festust inni í kerfinu til að fara út á vinnumarkaðinn með því að gefa þeim kost á að vinna í ákveðið langan tíma án þess að vera skertir um eina einustu krónu. Og hver er útkoman? 30% þeirra sem nýttu sér þá möguleika skiluðu sér ekki aftur inn á bótakerfið.

Hæstv. ráðherra heldur því fram að fara þurfi í einhverjar kerfisbreytingar áður en við getum afnumið krónu á móti krónu skerðingu. Ég kalla eftir rökstuðningi hvað það varðar frá hæstv. ráðherra, eins og hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir gerði áðan.