149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

málefni öryrkja.

[11:43]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Við sjáum sem betur fer fyrir endann á því afleita krónu á móti krónu kerfi sem við höfum allt of lengi búið við. Það er nefnilega partur af öðrum vanda sem ég vakti máls á í þinginu fyrir skömmu sem er að við höfum komið okkur upp kerfi sem letur fólk, og þann tiltekna hóp fólks ætla ég að gera að umtalsefni mínu, til að þoka sér aftur inn á vinnumarkað, m.a. út af fyrrnefndri skerðingu.

Ég hef bent á að 40% öryrkja á Íslandi núna, þ.e. þeirra sem metnir eru með meira en 75% örorku, eru það vegna geðraskana. 30% öryrkja á Íslandi eru ungt fólk, undir fertugu. Stærsti hlutur nýgengis inn í þann hóp eru ungir menn, 20–30 ára gamlir karlmenn, vegna geðraskana.

Þeim hópi hefur kerfið nánast mokað inn í 75% örorku, oft og tíðum vegna tímabundinnar vanlíðunar, kvíða, depurðar, þunglyndis, inn í sama kerfi og t.d. fjölfötluðu fólk sem á enga möguleika á því að komast nokkurn tíma inn á vinnumarkað, hvorki að hluta né öllu leyti. Auðvitað þarf annað kerfi og önnur úrræði fyrir það fólk. Það á ekki að leggja þann hóp að jöfnu við hópinn sem ég talaði um áðan.

Eftir að ég vakti athygli á þeim málum fyrir skömmu kom til mín stór hópur sérfræðinga í slíkum málum og benti mér á að nauðsynlegt væri að huga að öðrum úrræðum en við höfum beitt gagnvart því fólki. Niðurstaða fólksins (Forseti hringir.) er að koma þeim hópi fólks, ungu strákunum, í vinnu, í hlutverk þar sem þeir þurfa að koma, mæta og gera eitthvað.

Ég hvet nefndina og ráðherra til að huga sérstaklega að þeim málum og treysti því að því fylgi afnám á hinum fáránlegu reglum.