149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

málefni öryrkja.

[11:51]
Horfa

Snæbjörn Brynjarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er alltaf eitthvað svo stressaður þegar ég fer upp í þessa pontu að ég gleymi hlutum sem ég ætlaði að segja. Þess vegna langar mig að þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að hafa vakið máls á þessu, sem ég ætlaði að gera áðan, og taka undir ýmis atriði með honum. Mér svíður það óréttlæti sem króna á móti krónu skerðingin er. Svo finnst mér líka söknuður að honum úr Pírötum. Engu að síður finnst mér gott að hann sé á þingi fyrir Flokk fólksins og mér finnst Flokkur fólksins hafa staðið sig mjög vel í að tala um þessi mál.

Króna á móti krónu skerðingin er mjög hamlandi og leiðir til þess að fólk tekur oft slæmar ákvarðanir, þ.e. það þarf að eyða peningum sem það erfir kannski til að losna við að borga fjármagnstekjuskatt. Mér finnst það virkilega óréttlátt. Ég þekki marga sem hafa lent í einhverjum vandræðum vegna slíks. Það er eins og fólk sé einhvern veginn á móti því að fólk sem hefur lent í áföllum í lífinu geti á einhverjum tímapunkti haft það pínulítið gott. Það er alveg vangavelta hvers vegna í ósköpunum alltaf sé verið að lofa að taka burt þessa krónu á móti krónu skerðingu en ekkert hafi gerst. Nú er verið að lofa því að taka hana af, en um leið sett fram einhver gulrót um starfsgetumat sem veldur mér satt að segja svolítið miklum áhyggjum. Króna á móti krónu er gulrótin, svo eigum við að fara í starfsgetumat. Ég veit þess ekki mörg dæmi erlendis að þetta heppnist mjög vel og ég hef áhyggjur af þeim tölum sem ég sé um aukna sjálfsmorðstíðni.

Bara svo ég komi aftur inn á þetta sem ég var að tala um kulnun — nú er ég aftur svolítið stressaður, er ekki svo vanur. Mig langar að vísa í ársskýrslu VR frá 2017 um að greiðsla sjúkradagpeninga hafi aukist um 72% frá árinu 2006. Það sýnir að kulnun hefur aukist verulega. Ég held að það sé nauðsynlegt að við skoðum styttingu vinnuvikunnar. Það mun líka auka framleiðni, ég er alveg viss um það.

Svo í lokin, ég vil ekki gera lítið úr vanda ungs fólks, mér finnst hann skipta gríðarlega miklu máli, en við þurfum líka að horfa til þess (Forseti hringir.) að það er mikil aukning á örorku í eldri hópum, eiginlega langmesta aukningin. Það held ég að megi líka skýra með tilliti til vinnuálagsins.