149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

málefni öryrkja.

[11:59]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Takk fyrir þessa umræðu. Ég vil segja í fyrsta lagi að það er í vinnslu að afnema krónu á móti krónu skerðingar. Það er á dagskrá hjá núverandi ríkisstjórn að afnema krónu á móti krónu skerðingar. Hvernig það er gert verður í samstarfi bæði við þessa nefnd sem þegar er að störfum og við hagsmunasamtök, bæði Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp. Það liggur algjörlega skýrt fyrir.

Hitt liggur líka algjörlega skýrt fyrir að við verðum að auka atvinnuþátttöku fólks. Það verður m.a. gert með því að afnema krónu á móti krónu skerðinguna, en við þurfum líka að gera breytingar á kerfinu. Ég held að það hafi komið mjög skýrt fram í þessum umræðum hjá mörgum þeim sem hafa talað. Við verðum að gera breytingar.

Af hverju verðum við að gera breytingar? Ég ætla að endurtaka það sem ég sagði áðan. Við sjáum að hlutfall ungra öryrkja á aldrinum 18–39 ára er hæst á Íslandi í norrænum samanburði en 29% öryrkja hér á landi eru á þessum aldri. Ef við gerum engar breytingar, aukum ekkert greiðslur til örorkulífeyrisþega, aukum ekkert í framfærslu eða í öðru, höfum algjörlega óbreytt kerfi næstu 15 árin, þá munu greiðslur á föstu verðlagi úr ríkissjóði fara úr 41 milljarði í 90 milljarða. Árið 2016 41 milljarður, 90 milljarðar 2030. Það er þess vegna sem við verðum að gera breytingar á kerfinu samhliða vegna þess að við erum með þetta allt saman í einum hóp í dag: Fólk sem á að geta farið út á vinnumarkaðinn á nýjan leik og hins vegar fólk sem sannarlega þarf á því að halda að fá aukna framfærslu og sem samfélagið á sannarlega að standa betur við bakið á. Það er þetta sem við erum að vinna að. Það er í vinnslu í þessari nefnd. Það er m.a. verið að skoða þessa sænsku leið sem hv. þm. Inga Sæland benti á.

Ég er sannfærður um að okkur á að geta tekist hvort tveggja í senn, að afnema krónu á móti krónu skerðingarnar og þar með bæta framfærslu örorkulífeyrisþega og gera breytingar á okkar kerfi þannig að við getum aukið atvinnuþátttöku eins og mögulegt er, sérstaklega ungs fólks sem við viljum hafa úti á vinnumarkaðnum.

Ég þakka fyrir þessa umræðu. (Forseti hringir.) Ég er sannfærður um að við erum á réttri leið og þetta er ekkert langt í burtu. (Forseti hringir.) Ég þakka kærlega fyrir góðar umræður hér í dag.