149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[12:02]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um tvær þingsályktunartillögur um samgönguáætlun, annars vegar til fimm ára og hins vegar til 15 ára. Þar getur ýmislegt að líta. Horft er vítt yfir, haf, land og sjó. Það er víðfeðmt og glæsilegt ríkidæmi hæstv. samgönguráðherra, hátt til lofts og vítt til veggja.

Stjórnvöld hafa alið á miklum væntingum um stórátak í þessum málaflokki, eins og reyndar í mörgum öðrum sem lítið verður síðan úr, annað en ofurlítið fjaðrafok. Þingsályktunartillaga sú sem við lítum nú stenst ekki væntingar. Húrrahrópin heyrast enda ekki. Fagnaðarlætin ætla einhvern veginn ekkert að hefjast.

Það er sama hvert litið er, til landsbyggðar eða þéttbýlis, alls staðar er knýjandi nauðsyn á uppbyggingu vega, flugvalla og hafna. Orðræða stjórnvalda verður stöðugt einfaldari og á sömu lund. Mantran er orðin þeim töm á tungu. Ef þið viljið betri vegi verðið þið að borga meira, þið verðið að seilast aðeins dýpra ofan í vasana ykkar.

Það stendur auðvitað í almenningi að bæta við álögur sínar sem eru ærnar fyrir.

En veruleikinn blasir við okkur, fjölgun bifreiða, stöðugt vaxandi umferð og auknar kröfur til umferðarmannvirkja kalla á síaukin opinber útgjöld. Það er því ærin ástæða til að taka gjaldtöku af umferð til skoðunar í heild sinni, hagnýta sér nútímatækni með framtíðina að leiðarljósi. Ekki að skella á gjaldtöku á ábatasömum blettum með öruggan gróða, jafnvel einstaklinga og einkafyrirtækja í huga.

Hver lítur sjálfum sér næst og ef ég horfi til hins stóra kjördæmis í norðvestri eru þar margar áskoranir. Meginmarkmið í samgöngumálum á Vestfjörðum hafa verið nær óbreytt í 20 ár, um þetta málefni hefur verið samstaða meðal heimamanna. Heilsárstenging milli þjónustusvæða, byggðarlaga og við aðra landshluta.

Ástæða er til að halda á lofti því sem vel er gert og þar má finna nokkur dæmi í Norðvesturkjördæmi. Á Vestfjörðum, norðursvæðinu, eru spennandi verkefni í fullum gangi. Dýrafjarðargöngin ber þar langhæst og ganga þar framkvæmdir vel. Hins vegar er það algjörlega óásættanlegt að vegaframkvæmdir sem eru forsenda góðrar nýtingar skuli ekki vera tryggðar samhliða. Vegabætur í Arnarfirði og á Dynjandisheiði eru slitnar frá og að þessu leyti verður baráttumál að snúa stjórnvöldum til hins betri vegar.

Því ber auðvitað að fagna að mjór vegur um Hestfjörð og Seyðisfjörð í Djúpinu skuli fá blessun og yfirhalningu. Það mun heldur betur birta yfir Vestfirðingum ef þetta gerist og hver veit nema gamlir símastaurar fari að syngja í sólskininu og verði grænir aftur, svo gripið sé til orðfæris borgarskáldsins góða. Þá er það mikið gleðiefni ef vegurinn um Fróðárheiði verður kláraður á næsta ári og er það langþráður áfangi að ná fyrir íbúa á svæðinu.

Veginn um Gufudalssveit er að finna í þessari tillögu og gert ráð fyrir fjárveitingum strax á árinu 2019, ef ég skil rétt. Nú þurfum við að bretta upp ermar og sjá til þess að þessi samgöngubót verði að veruleika en óneitanlega er landsýn enn ekki skýr. Það er ekki við stjórnvöld ein að sakast, heimamenn verða að taka höndum saman, taka á árunum saman með okkur og við róum í eina átt.

Þegar sunnar dregur í kjördæminu þynnist nú þrettándinn. Fyrst kemur í hugann að sú mikilvæga tengileið sem er Skógarstrandarvegur á Snæfellsnesi ratar ekki inn í samgönguáætlun fyrr en fyrst árið 2024. Þetta er leið sem er mikil samgöngubót og tengir saman atvinnusvæði og er víðfarin ferðamannaleið.

Vegur um Uxahryggi frestast enn, Laxárdalsheiði sem er mikilvæg samgönguleið milli Búðardals og Borðeyrar, þegar Holtavörðuheiði sérstaklega, verður enn og áfram talsverður farartálmi, malarvegur að stórum hluta. Það eru ýmsir tengivegir, fjölfarnar leiðir sem bæði heimamenn og stöðugur flaumur ferðamanna nýtir. Ég nefni veginn um Vatnsnes sem er mjög fjölfarinn vegur í blómlegri sveit. Þar er skóli og ung börn sem þurfa að ferðast með skólabíl um langan veg að heiman og heim og mæta oft til leiks dösuð, jafnvel af bílveiki, eftir akstur á holóttum vegi.

Á Vatnsnesi er líka að finna vinsælt kennileiti í ferðaþjónustu og hreina náttúruperlu sem er Hvítserkur. Búið er að gera aðstöðuna við þennan áningarstað ágæta. Þar er fyrirtaksbílastæði, en stóran hluta vetrar er hins vegar ófært niður að svæðinu fyrir venjulega fólksbíla og lenda ferðamenn þar í ógöngum og þurfa á dugmiklum dráttarbílum að halda til að ná sér aftur á sporið.

Skagastrandarvegur er eina stóra samgöngubótin á Norðurlandi vestra sem kemur fram í langtímasamgönguáætlun. Þverárfjallsvegur ratar seint inn í áætlunina og því una heimamenn illa vegna mikillar umferðar á milli byggðarlaga. Þetta er meira og minna orðið eitt atvinnusvæði. Í sunnanverðu kjördæminu telst mér til að á næsta ári verði varið sáralitlu fé í vegabætur. Það er aldeilis óhæfa, þetta er ein fjölfarnasta umferðaræð á landinu. Hvergi er t.d. minnst á Grunnafjörð, hugmyndir að endurskoða vegalagningu þar, og á Kjalarnesi í nágrenni okkar kjördæmis þarf að gera stórátak.

Í greiningu Vífils Karlssonar hagfræðings um umferð og ástand vega á Vesturlandi sem unnin var fyrir samtök sveitarfélaganna á svæðinu fyrir tveimur árum kom fram að árið 2014 var hlutfallslega mest af malarvegum á Norðurlandi vestra. Lítið hefur gerst síðan og hefur Norðurland vestra dregist enn frekar aftur úr öðrum landsvæðum. Gott dæmi er Skorradalur, en þar er fjölmenn frístundabyggð. 16% af vegunum þar eru bundin slitlagi.

Ég nefndi Vatnsnes áðan þar sem er líka mjög illa farinn vegur en í samgönguáætlun er fé til þess m.a. að lagfæra vegi sem ekki þurfa að fullnægja kröfum sem almennt eru gerðar til þjóðvega, eftir því sem ég kemst næst.

Herra forseti. Flugið er mikilvægur þáttur samgangna. Nauðsynlegt fjármagn til viðhalds og framkvæmda á flugvallarmannvirkjum og flugleiðsögubúnaði innanlandsflugvalla skortir stórlega, líklega 1.200 milljónir árlega ef koma á innviðum innanlandskerfisins í sæmilegt horf á næstu fimm árum. Á síðustu tíu árum hafa að meðaltali farið í þennan lið sirka 365 millj. kr. á ári. Áætlunarflug á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, Bíldudals og Gjögurs eru mikilvægustu almenningssamgöngur Vestfirðinga og lífæð byggðanna stóran hluta ársins. Fjórðungsþing hefur ítrekað hvatt ríkið til að gera flug að raunverulegum og aðgengilegum kosti til að nýtast almenningi, t.d. samkvæmt svokallaðri skoskri leið. Það verður fróðlegt að fylgjast með framgangi þess máls innan ríkisstjórnar.

Enginn landshluti býr við jafn lélega flugvelli og Vestfirðir. Að jafnaði geta ekki stærri flugvélar en 37 sæta vélar flogið vestur. Þetta hamlar augljóslega uppbyggingu í ferðaþjónustu og þróun atvinnulífs. Þingsályktunartillaga um staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll fyrir Vestfirði hefur verið lögð fram. Fjórðungsþing Vestfirðinga hefur ályktað um tillöguna og styður það að farið verði í þessa vinnu sem er ekki útgjaldasöm fyrir hið opinbera á þessu stigi.

Ekki verður skilið við þessa umræðu um flugvelli án þess að nefna Alexandersflugvöll á Sauðárkróki sem að mati kunnáttumanna er vel í sveit settur og getur þjónað í senn sem varaflugvöllur fyrir millilandaflug og sem áætlunarflugvöllur innan lands. Til þess þarf að skjóta styrkari stoðum undir rekstur vallarins og flugsins sem almenningssamgöngumöguleika fyrir landsbyggðarfólk. Þar komum við aftur að skosku leiðinni sem er áhugaverður kostur sem vert er að skoða.

Við getum ekki horfið frá umræðu um samgöngumál án þess að staldra við á hafnarbakkanum. Hafnir landsins eru auðvitað lífæðar fjölmargra byggðarlaga. Sett er fé í brýnar framkvæmdir í Bolungarvík, Grundarfirði og í smábátahöfnina á Skagaströnd. Það er vel og vonandi gengur það eftir.

Að vinna að samgönguáætlun hlýtur í raun að vera heillandi verkefni, að byggja upp, ryðja brautir og horfa fram. Í þeirri tillögu sem nú liggur fyrir er víða borið niður, margs þarf búið við, það er í mörg horn að líta. Það eru ekki endilega háu upphæðirnar sem fanga mann þegar maður les tillöguna, ekki í stóra samhenginu. Árleg fjárveiting til reiðvega verður t.d. 75 millj. kr. á tímabilinu árlega og vonandi nýtist það líka hjólandi fólki og gangandi. Sömuleiðis er gert ráð fyrir að það kosti 60 milljónir að viðhalda girðingum meðfram vegum landsins og forða búfé frá bráðum skaða.

Þá lítur áætlunin til áherslubreytinga, hagkvæmra og umhverfisvænna samgönguhátta og bendir á ýmsa möguleika til að fara af einum stað á annan öðruvísi en bara í mengandi og eyðslufrekum bíl. Vísað er til danskra rannsókna sem sýna fram á að spara megi um 1 evru í heilbrigðiskerfinu fyrir hvern hjólaðan kílómetra. (Forseti hringir.) Þarna er hægt að slá margar flugur í einu höggi, bæta hag og lýðheilsu. Augljós þjóðhagslegur ábati sem að vísu hefur ekki verið sannreyndur á Íslandi, en ég held að við ættum að gera reiðhjólin klár.

Herra forseti. Net vegakerfisins á Íslandi er umfangsmikið í okkar strjálbýla landi. (Forseti hringir.) Við gerum miklar kröfur og þær fara síst minnkandi. Við viljum hafa þá ásýnd að við séum þróuð þjóð með sterka innviði. Þjóðvegakerfið á Íslandi er tæplega 13.000 km að lengd. Bundið slitlag er rúmlega 5.500 km. (Forseti hringir.) Brýr eru nærri 1.200 og stór hluti þeirra, um 700, einbreiður. (Forseti hringir.) Frá árinu 2019 er áætlað að auka framlag til viðhalds vega í 10.000 millj. kr. á ári. (Forseti hringir.)

Herra forseti. (Forseti hringir.) Það eru margar áskoranir, mörg og spennandi verkefni fram undan.