samgönguáætlun 2019--2033.
Virðulegi forseti. Mig langar til að koma inn á tvö mál sem eru hluti þessarar samgönguáætlunar sem eru ólík en tengjast þó. Það er ljóst að uppsöfnuð viðhalds- og fjárfestingarþörf í vegakerfi er gríðarmikil og ekki verður umflúið að takast á við þann vanda. Mig langar til að fagna meginmarkmiðum samgönguáætlunar um trausta og örugga innviði. Þar eru allir sammála. Margt í þessari samgönguáætlun er þess eðlis að vandað hefur verið til verka og þar er tekist á við brýna þörf.
Mig langar hins vegar til að gagnrýna dreifingu á framkvæmdum á tímabil. Afturþungi þessarar samgönguáætlunar er nokkuð mikill og það þýðir að verkefni á samgönguáætlun skila arði of seint, þ.e. ef fjármunir eru settir í verkefni sem ekki nýtist að fullu skilar verkefnið ekki arði, það er ekki hægt að nota það.
Dýrafjarðargöng eru á fyrsta tímabili þessarar samgönguáætlunar og því ber að fagna en tengd þeirri framkvæmd er Dynjandisheiði sem áætlað er að ljúka á öðru tímabili, þ.e. 2028, sem er eftir tíu ár. Við verðum að skoða samhengi hlutanna. Þegar komið er í gegnum Dýrafjarðargöng að norðan og komið inn í Arnarfjörð er heiðin lokuð þannig að Dýrafjarðargöng nýtast ekki sem skyldi. Því langar mig til þess að hvetja samgönguráðherra til að skoða hvort hægt sé að fara fyrr í Dynjandisheiði og framkvæmdir þar til að þessum verkefnum megi ljúka á svipuðum eða sama tíma. Þegar við ræðum þessi mál er ekki hægt að skauta fram hjá því að tafaleikir skipulagsyfirvalda á sunnanverðum Vestfjörðum hafa valdið skaða og hafa raunverulega þvælst fyrir yfirvöldum. Það er mikilvægt að flýta Dynjandisheiði og færa yfir á fyrsta tímabil til að þessar vegaframkvæmdir nýtist sem skyldi. Vestfirðingar hafa búið við óviðunandi tafir á framkvæmdum í tíu ár og með þessu er áætlað að þeir bíði í önnur tíu ár að því gefnu að skipulagsyfirvöld tefji ekki enn frekar.
Löggjafinn þarf að vera óhræddur við að stíga inn í slíkar tafir og slík mál og, ég ætla að tala hreina íslensku, þegar skipulagsyfirvöld hreinlega þvælast fyrir framþróun og öryggi í samgöngum. Dýr mannvirki sitja á hakanum og bera ekki arð fyrir samfélagið. Þessi mannvirki eru ætluð til þess að liðka fyrir flutningum á fólki og vörum og þjónustu, stytta ferðatíma, auka öryggi, sameina atvinnusvæði og tengja markaði og framleiðendur. Við verðum að flýta þessum framkvæmdum.
En nú vík ég ræðu minni að öðru atriði sem er í 4. kafla samgönguáætlunar og flokkast undir almenn samgönguverkefni, þ.e. framtíðaraðstöðu til æfinga- og kennsluflugs. Í dag er Reykjavíkurflugvöllur aðalaðstaða æfinga- og kennsluflugs og það er ekki að ástæðulausu, aðstaðan er fyrir hendi.
Í samgönguáætlun má finna yfirlýsingu þess efnis að Reykjavíkurflugvöllur verði aðalflugvöllur til þessara nota og annarra þar til annar kostur hefur verið fundinn. Ég kalla eftir nánari útlistun á hvar og hvernig og hver sú aðstaða verði sem þar á að vera. Verður þar aðstaða einnig til sjúkraflugs, ljósmynda- og eftirlitsflugs, þyrlu- og útsýnisflugs, kennsluflugsins, innanlandsflugs, áætlunarflugs, leiguflugs, millilandaflugs og almannaflugs? Verður flugskólum og smærri flugrekendum ásamt grasrótarflugi búin aðstaða á hinum nýja stað? Hversu miklum fjármunum er áætlað að ráðstafa í slíka aðstöðu? Á að byggja nýtt og rífa það sem er nothæft? Spurningin er kannski stærri en í fyrstu má virðast vegna þess að Reykjavíkurflugvöllur er í dag raunverulega menntasetur líka, menntasetur kynslóða atvinnufólks sem síðar mun manna flugvélar í millilandaflugi sem er, nota bene, einn stærsti iðnaðurinn á Íslandi í dag.
Myndi einhverjum detta í hug að loka skóla fyrir skipstjórnarmenn eða heilbrigðisstarfsfólk eða kennara? Þessi aðstaða þarf að vera fyrir hendi. Þetta er nauðsynlegur hluti af menntun fólks sem starfa á í greininni.
Það má ætla að uppbygging nýs flugvallar sé af stærðargráðunni 180–250 milljarðar kr., nánast helmingur af fjármunum Vegagerðarinnar á næstu 15 árum. Þá kem ég aftur að þeim punkti að skipulagsvaldið, skipulagsyfirvöld í þessu tilfelli í Reykjavíkurborg, hafa leynt og ljóst unnið að því árum saman að leggja stein í götu traustra og öruggra innviða.
Beinast liggur við að Reykjavíkurflugvöllur haldi sinni staðsetningu og sinni stöðu og verði endurbættur og byggður upp. Það er ódýrast, það hefur mikil samlegðaráhrif, bæði fyrir innanlands- og millilandaflug á Íslandi. Ég held að við verðum að segja það berum orðum að þjóðhagsleg hagkvæmni er í því að Reykjavíkurflugvöllur verði þar sem hann er. Ef skipulagsyfirvöld í sveitarfélögum eins og Reykjavíkurborg geta hagað sér með þeim hætti sem þau hafa gert og hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að bola flugvellinum í burtu munu þau baka ríkinu, skattborgurum, ómældan kostnað og tafir verða á yfirlýstum markmiðum ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu öruggra og traustra innviða.