149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[12:44]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég heyrði að hann komst bara yfir hluta af því sem hann ætlaði að ræða. Ég veit að hv. þingmaður þekkir vel til flugsins og hann fór ágætlega yfir það.

Ég hefði áhuga á að spyrja hv. þingmann um þau uppbyggingaráform sem uppi eru í Keflavík og þróunarverkefni Isavia þar. Hefur hv. þingmaður þá skoðun að það sé skynsamleg leið og nýting fjármuna, eða væri kannski skynsamlegt að nýta þá fjármuni með öðrum hætti og þá í fleiri flugvelli út um landið?

Einnig væri áhugavert að heyra meira frá þingmanninum um fjármögnun á samgöngukerfinu. Eins og hv. þingmaður kom inn á, ég held að allir þingmenn hafi komið inn á það í umræðu um samgönguáætlun, er vissulega verið að gefa vel í í þessari samgönguáætlun og það er vel því þetta er mikilvægt verkefni. En flest myndum við vilja sjá jafnvel enn frekari framkvæmdir hvort sem er í flugsamgöngum eða vegsamgöngum. Sér þingmaðurinn fyrir sér að hægt væri að fara aðrar leiðir til að fjármagna slíka uppbyggingu?