149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[12:46]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa spurningu og fyrir að leyfa mér að fá tækifæri til að ræða þessi mál.

Ég er hlynntur því að skoða vel vegtolla eða veggjöld, hvað sem menn vilja kalla þetta, til frekari fjármögnunar. Ég er þeirrar skoðunar og hef alltaf verið að góðar samgöngur styrki samfélagið okkar, þær auka hagvöxt, byggja upp atvinnulíf og hafa satt að segja gríðarleg áhrif.

Ég var skiptinemi í Bandaríkjunum fyrir 30 árum, tók námskeið um þetta og lærði mjög mikið um samgöngur í Bandaríkjunum frá því að þeir stofnuðu ríkið og hvernig þetta gerðist allt saman. Það voru ótrúlega áhugaverðar pælingar sem sneru að þessu.

Miðað við það fjármagn sem við erum að tala um núna þá er mjög langt í það að við náum þeim markmiðum sem maður myndi gjarnan vilja sjá. Ég tel sjálfsagt og æskilegt að skoða þetta. Ég er t.d. með hugmyndir sem hafa ekki komið inn í þingið af neinni alvöru um að það kæmi vegur yfir Kjöl í einkaframkvæmd til að dreifa ferðamönnum betur vítt og breitt um landið. Það eru ýmsar svona framkvæmdir til að opna svæðin, búa til betri dreifingu sem hafa grundvallaráhrif á okkar efnahagslíf, atvinnulíf og búsetu í landinu. Við gætum gert svo miklu meira með því að hraða slíkum framkvæmdum.

Varðandi spurninguna sem snýr að Isavia og hinu svokallaða ,,masterplani“ sem hefur verið kynnt varðandi Keflavíkurflugvöll þá eru þetta gríðarlegar framkvæmdir. Hlutfall framkvæmdanna sem eru áætlaðar þarna samsvara 40% af öllum fjárfestingum ríkisins í fjármálaáætlun, til að setja þetta í eitthvert samhengi. 40% er masterplanið miðað við allt ríkið í sínum fjárfestingum á næstu árum. Ég hefði gjarnan viljað að eigendastefnan hefði verið tilbúin fyrir mörgum árum þannig að ríki og stjórnvöld væru meira inni í því hvað menn eru að gera, vegna þess að hagsmunirnir fyrir íslenskt samfélag í stóra samhenginu eru svo gríðarlegir af því sem er verið að gera hjá Isavia í Keflavík. Þess vegna verða stjórnvöld að vera betur tengd við þær framkvæmdir.