149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[12:48]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að tala aðeins um Reykjanesbrautina. Í úttekt sem liggur til grundvallar drögum að umferðaröryggisáætlun fyrir Hafnarfjarðarbæ kemur fram að umferðarmagn á Reykjanesbraut gegnum Hafnarfjörð hafi aukist um rúmlega 50% frá árinu 2010. Áætlað er að daglega fari þarna yfir 45.000 bílar að meðaltali. Isavia gerir ráð fyrir því að 10 milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll á þessu ári og árið 2033 er gert ráð fyrir að það verði 18 milljónir farþega. Óneitanlega vaknar sú spurning hvernig koma eigi öllu þessu fólki til og frá. Þetta snýst sem sé ekki fyrst og fremst um hagsmuni tiltekins kjördæmis. Þetta snýst ekki eingöngu um íbúa á þessu svæði sem hafa þó mjög ríka hagsmuni hér, heldur er þetta mál sem varðar alla landsmenn og alla þá sem hingað koma. Þetta snýst um öryggi allra þeirra sem fara um Reykjanesbrautina.

Í fyrrgreindri úttekt sem gerð var til grundvallar umferðaröryggisáætlun fyrir Hafnarfjarðarbæ, kemur líka fram að alvarlegustu umferðarslysin í Hafnarfirði verða á og við Reykjanesbraut. 42% allra umferðarslysa í sveitarfélaginu á árunum 2010–2016 urðu á götum í eigu Vegagerðarinnar. Ekki stendur ekki til að ljúka tvöföldun á Reykjanesbraut fyrr en árið 2033.

Það má líka nefna að mjög brýnt er að gera endurbætur á tvennum gatnamótum á vegarkaflanum frá Kaplakrika og að Lækjargötu. Það er ekki inni í fimm ára áætluninni. Það er óboðlegt.

Virðulegi forseti. Það sem við tölum um og það sem hér liggur fyrir er eitt stærsta verkefni þingsins ef ekki það stærsta. Mig langar að nota þær mínútur sem ég hef til umráða til þess að vekja máls á loftslagsmálum í tengslum við þetta. Mig langar til þess að taka undir með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni í ræðu sem hann hélt í gær þar sem hann tengdi samgönguáætlun við skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, kolsvarta skýrslu sem okkur er öllum vonandi í fersku minni og væri óskandi að sæi betur stað í samgönguáætlun. Við höfum mjög metnaðarfulla og ágæta aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem byggir annars vegar á því að binda kolefni með skógrækt og endurheimt votlendis. Hins vegar byggir hún á orkuskiptum í samgöngum. Það hefði verið æskilegt ef í samgönguáætlun væri meira tekið mið af þeim markmiðum. Þar verðum við að horfast í augu við að leiðin til þess er ekki bara að skipta úr bensíni eða olíu í rafmagn, heldur snýst þetta líka um að fækka einkabílum í umferðinni og efla almenningssamgöngur. Vissulega er um að ræða 1 milljarðs viðbótarframlag til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, sem er mjög gott. En það vantar samt, finnst mér, augljóslega aðgerðir til þess að fækka einkabílum á götunum.

Ég vil leggja áherslu á það í þessu sambandi að við þurfum að hugsa almenningssamgöngur dálítið upp á nýtt. Okkur hættir til þess að hugsa um almenningssamgöngur sem nokkurs konar neyðarbrauð, neyðarúrræði, fátæktarúrræði, að fólk neyðist til að nota almenningssamgöngur þegar það hefur ekki efni á öðru.

Vissulega þarf að sjá til þess að fátækt fólk geti komist staða á milli og kannski er brýnna að sjá til þess að fátækt fólk hafi þann kost. Það þarf kannski ekki að hugsa um fólk sem hefur þokkalegar tekjur í því samhengi en það þarf að koma þeirri hugsun inn hjá fólki sem hefur einmitt þokkalegar tekjur, er vel efnað, að það eigi líka að nota almenningssamgöngur. Það er ekki vegna þess að ég beri svo mikla umhyggju fyrir því fólki, heldur segi ég þetta vegna þess að það er nauðsynlegt fyrir okkur til þess að ná fram markmiðum okkar og skuldbindingum í loftslagsmálum að efla almenningssamgöngur og gera almenningssamgöngur að raunverulegum valkosti fyrir fólk.

Svo ég noti hér hið dónalega orð borgarlína. Í öðrum löndum er eiginlega undantekningarlaust litið svo á að almenningssamgöngur, alveg sérstaklega með lestum með ýmsum hætti, séu eðlilegur og sjálfsagður partur af borgarlífinu og er einmitt litið svo á að þær séu úrræði fyrir fólk að komast á milli staða, úrræði hins breiða fjölda.

Hér á höfuðborgarsvæðinu tökumst við á um og þráttum um hvort strætisvagnar eigi að hafa sérstaka akrein. Við erum nú ekki komin lengra en svo í því að þróa leiðir til þess að búa saman. Maður verður meira að segja var við að það er sumum hreinlega hugsjónamál að koma í veg fyrir að strætisvagnar fái sérstaka akrein.

Virðulegur forseti. Í mínu kjördæmi, Suðvesturkjördæmi, eru ýmsar framkvæmdir sem rætt er um, en allt á þetta að gerast eftir árið 2024 og er fjármögnun þar af leiðandi ekki jafn viss og ella væri. Jafnvel finnst manni einhvern veginn liggja í loftinu að hugsað sé þannig að þær eigi jafnvel að fjármagna með gjöldum.

Gjaldtökuumræðan. Nú er ég nýgræðingur í stjórnmálum og kannski ekki nógu vel að mér í því hvernig stunda á stjórnmál, en ég varð hins vegar var við það í kosningabaráttunni fyrir síðustu kosningar að nánast allir frambjóðendur lögðust gegn því að hér yrði gjaldtaka, að samgöngubætur yrðu fjármagnaðar með gjaldtöku. Það var eiginlega ekki nema einn maður, hv. þm. Jón Gunnarsson, sem þá var ráðherra, sem talaði fyrir þeirri leið. Nú bregður svo við að það talar enginn gegn gjaldtöku. Kannski er það vel. Kannski er það einmitt til marks um þroskuð stjórnmál, en ég held að það væri samt enn betra ef við hefðum talað um það fyrir kosningar og hefðum umboð frá kjósendum til að leggja í þá umræðu, án þess að ég leggist gegn gjaldtöku.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir lagði fram fyrirspurn um fé til samgöngumannvirkja á síðustu 10 árum, greint eftir kjördæmum, eins og kom fram í (Forseti hringir.) ræðu hennar í gær. Þar kemur fram að í nýframkvæmdir (Forseti hringir.) hafa 20% farið í Suðurkjördæmi, 11% í Suðvesturkjördæmi, 29% í Norðvesturkjördæmi, (Forseti hringir.) 5% til Reykjavíkurkjördæmanna og 34% til Norðausturkjördæmis. (Forseti hringir.) 16% til höfuðborgarsvæðisins. (Forseti hringir.) Á höfuðborgarsvæðinu (Forseti hringir.) búa 70%.