149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[12:59]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni fyrir ræðuna og umfjöllun um samgönguáætlun, enda alltaf gaman að ræða samgöngumálin. Ég veitti því athygli að hann talaði af mikilli þekkingu — að því er virtist — um borgarlínu og hvernig búið væri að útfæra hana. Við höfum ekki öll áttað okkur á því hvað orðið borgarlína þýðir, um hvað nákvæmlega er verið að tala, hvað í því felst að fjármagna borgarlínu. Ég hef heyrt talað um borgarlínu og áætlaðan kostnað eða fjárfestingu upp á 80 milljarða. Samt hefur mér alltaf fundist það vera rosalega mikið á reiki í hvað eigi að nota þá 80 milljarða, í hvað þeir eiga að fara. Á að nota þá til að byggja léttlestir? Til að byggja nýjar stætóleiðir? Í að hafa strætóferðir tíðari? Er um að ræða sambland léttlesta og strætó og svo tíðari ferða? Er um að ræða stærri samgöngumiðstöðvar eða fleiri samgöngumiðstöðvar víðar um borg? Hvað nákvæmlega er borgarlínan?

Þá kem ég kannski að spurningunni: Mér fannst þingmaðurinn setja það þannig upp að umræðan og deilurnar um borgarlínu snerust aðallega um það hvort við værum sammála um að setja sérakreinar fyrir strætó eða ekki. Er það rétt skilið hjá mér að borgarlína snúist um sérstakar strætóleiðir? Kostar það 80 milljarða að gera sérstrætóleiðir ofan á þær sérleiðir sem eru til staðar í dag?