samgönguáætlun 2019--2033.
Virðulegur forseti. Ég held að við getum verið alveg sammála um að mikilvægt sé að styrkja almenningssamgöngur og gera þær þannig úr garði, hvort sem er með strætó, flugi eða ferjum, að auðvelt sé fyrir sem flesta að nota þær, að þær séu raunhæfur valkostur. Við erum alveg sammála um það. Þess vegna sakna ég þess svolítið, í umræðum um borgarlínuna, að settar séu fram konkret hugmyndir: Það er þá fyrsti fasi að fjölga sérakreinum fyrir strætisvagna. Ég hef ekkert á móti því að við reynum að ráðstafa fjármagni í það ef það getur dregið úr slysum á höfuðborgarsvæðinu og leyst úr umferðarhnútum. Við erum alltaf föst með umræðuna um borgarlínuna í 80 milljörðum og svo er algjörlega óljóst í hvað þeir eiga að fara. Ef þetta er aðgerð sem við getum farið í strax getum við rætt það þannig. Þá þarf borgin líka að vera tilbúin, og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, til að fjölga ferðum á þessum línum strax, ekki eftir árið 2019, eða hvenær sem þau ætla að gera tilraunir með það. Við þurfum að taka umræðuna út frá þessu. Við þurfum að horfa á alla samgöngumáta í höfuðborginni, hvernig við getum greitt fyrir þeim. Ég held að við eigum bara að byrja á byrjuninni og afmarka verkefnið svolítið í staðinn fyrir að tengja allt sem tengist strætó og greiðari samgöngum borgarlínu. Við skulum ræða þetta verkefni fyrir verkefni.