149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[13:05]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé bara samhljómur með okkur hv. þingmanni. Ég hef fyrir satt að það ríki líka samhljómur um þetta innan ríkisstjórnarinnar, alla vega innan ríkisstjórnarflokkanna, alla vega innan stjórnarsáttmálans, þar sem sérstaklega er tekið fram að koma skuli borgarlínu á.

Ég hef óneitanlega furðað mig á því hversu neikvæð umræðan hefur á köflum verið um þennan kost sem mér finnst blasa við að hljóti að vera nánast eini kosturinn sem við höfum til að koma okkur yfirleitt á milli staða í náinni framtíð. Það eru þessar spár um að íbúum höfuðborgarsvæðisins muni fjölga um 70.000 manns til ársins 2040 — frekar en 2035, hef það ekki alveg í hausnum. Þannig að það er gríðarlegur mannfjöldi sem hér á eftir að vera. Og það er augljóst mál að í þessu þrönga rými dugir einkabíllinn ekki. Við þurfum að byrja einhvers staðar.

Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður segir, við munum byrja á þessum fasa. Ég veit ekki annað en til standi að greiða strætó leið með sérstökum akreinum sem vonandi mun ekki mæta of mikilli andstöðu úr flokki hv. þingmanns.