149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[14:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Í stuttu máli er svarið við fyrri spurningunni, það kom reyndar fram hjá mér áðan: Í upphafi skyldi endinn skoða. Það lá fyrir fyrir ári síðan að ef menn gerðu það sem þeir hafa illu heilli gert, að gefa frá sér banka á slikk, myndu menn missa af tækifærum til að fá fullt af peningum í ríkissjóð. Það er ekkert „ef“ og „hefði“ með því. Menn tóku þá röngu ákvörðun og verða að lifa með henni. Þess vegna m.a. skortir fé inn í áætlunina, vegna þess að menn tóku rangar ákvarðanir í fyrra.

Annað sem mér þótti mjög fróðlegt að heyra frá hv. þingmanni var að menn myndu leggja fram viðbótarsamgönguáætlun. Við erum að ræða samgönguáætlun sem gildir annars vegar næstu 4 ár. (Gripið fram í.)Við erum hins vegar að ræða samgönguáætlun sem gildir næstu 12 ár, er það ekki? Ætla menn svo að koma með viðbótaráætlun? Viðbótaráætlun við hvora áætlunina? Hvenær kemur hún fram? Hvenær eigum við að ræða þá viðbótaráætlun? Er samþykki fyrir því í ríkisstjórn að leggja fram viðbótaráætlun í samgöngumálum? Hvað er þetta?

Þetta opinberar enn einu sinni þann málefnaágreining sem er uppi í ríkisstjórninni. Auðvitað ráðast menn á garðinn þar sem hann er lægstur og þar sem menn eru viðkvæmastir fyrir. Þess vegna er slíkt ástand uppi.

Hér skortir ekki fé, hv. þingmaður. Ríkisstjórn sem treystir sér til að gefa vogunarsjóðum banka á nógan pening, alveg skítnógan pening.