149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[14:26]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni andsvarið. Eins og ég skilgreini það geta samvinnuverkefni verið ýmiss konar form samstarfs opinberra aðila og einkaaðila, eins og t.d. í Hvalfjarðargöngum. Ég tel mjög mikilvægt að fram fari breið umræða um hvers konar samvinna getur farið fram innan ramma slíkra verkefna. Fjöldi fólks hér á landi hefur verið að kynna sér hvernig t.d. Færeyingar og Norðmenn vinna. Mér finnst mjög áhugavert að fylgja því eftir. Það eru líka ýmsir möguleikar í tækninni sem skapa alveg nýjan grundvöll í svona samstarfi. Eins og hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur lýst er verið að vinna skýrslu sem ráðuneytið á von á í lok árs. Auðvitað bíð ég eftir að sjá hvað kemur þar fram.

Eins og ég kom inn á í ræðu minni hefur ráðherrann boðað frumvarp þegar líður að lokum þessa árs eða snemma næsta árs, sem gefur okkur líka tækifæri til þess að vinna fram að þeim tíma, og eins þegar frumvarpið kemur til þingsins að útfæra betur þær fjármögnunarleiðir sem við eigum mögulegar vegna samgangna.