149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[14:32]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við velferðarmál númer eitt. Mig langar að gera að umtalsefni mínu þátt sem ég held að við getum gert margt gott með því að styrkja og við höfum svigrúm innan áætlunarinnar til að efla hann. Það sem ég er að vitna til eru sveitavegir úti um allt land. Þeir eru flokkaðir í nokkra þætti, t.d. tengivegi, héraðsvegi, styrkvegi og stofnvegi.

Slíkir vegir eru gríðarlega mikilvægir og þarfnast uppbyggingar og viðhalds á mjög mörgum stöðum hringinn í kringum landið. Þeir þjóna stóru hlutverki. Þeir eru lykilvegir í skólaakstri, lykilvegir sem tengingar innan samfélaga, innan sveitarfélaga og atvinnusvæða. Þeir eru mikilvægar leiðir að helstu ferðamannastöðum okkar, hálendinu, gljúfrunum, lónunum og jöklunum. Innan þjóðgarða, innan friðlýstra svæða og á fleiri stöðum eru þeir algerir grunnvegir. Þeir eru einnig mjög mikilvægir í landbúnaðarlegu tilliti þar sem bændurnir þurfa að fara um vegina með búfénað sinn og til að stunda búrekstur sinn, heyja og sjá um tún.

Það eru ekki neitt rosalega háar fjárhæðir í því. Það fjármagn sem við bætum við í þá sjóði mun lyfta grettistaki í mörgum byggðum í landinu. Ég held að við eigum að setja fókusinn á það. Með því að ráðstafa meira fjármagni í sjóðina hjálpum við um allt land, ekki aðeins í ákveðnu kjördæmi eða ákveðnu bæjarfélagi, en eins og við þekkjum byrjar umræðan um samgöngumál alltaf á því sama: Hvaða kjördæmi fær mest? Hvaða svæði fær mest? Ég held að þarna séum við með gott verkefni. Við ættum að reyna að gera betur. Við getum náð miklum árangri fyrir lágar fjárhæðir. Ég myndi vilja að við einblíndum á þetta.

Við þurfum náttúrlega að huga að fleiru mikilvægu. Ég taldi upp fjölbreyttar tegundir vega víða um land en við erum líka með fjölbreyttar tegundir flugvalla, af mismunandi stærð og með mismunandi notkun, sem eru mjög mikilvægir. Við megum ekki gleyma þeim í umræðunni, því að hún fer svo mikið yfir í vegina.

Síðan eru það hafnirnar. Þær eru ekki alltaf vinsælasta umræðuefnið af því að mikið af framkvæmdum eru undir sjávarmáli og enginn kjósandi sér þær. En þær eru margar hverjar komnar til ára sinna. Skipin eru að breytast, notkunin á þeim er að breytast. Það þarf að viðhalda þeim, dýpka meira en hefur verið gert, auka sjóvarnir og varnargarða og annað slíkt. Það er mjög mikilvægt að við sinnum því og höfum augun á því.

Þegar við ræðum flugvellina snýst umræðan oftast um millilandaflugið á Keflavíkurflugvelli og svo aðra varaflugvelli sem eru millilandaflugvellir í dag. Ég vil hins vegar nefna að mikilvægt er að leyfa líka minni flugvöllunum að opna fyrir ferjuflug og annað slíkt sem tekur á móti minni flugvélum, bæði út af ferðaþjónustunni og líka út af umhverfismálum, þannig að ekki þurfi að fljúga til Keflavíkur áður en flogið er á hina staðina. Þetta er öryggisatriði, þetta er umhverfisvænt, flugleiðir yfir hafið eru styttar með því að leyfa lendingu slíkra flugvéla á flugvöllum eins og á Hornafirði, í Vestmannaeyjum og á Ísafirði sem dæmi. Það er gríðarlega mikilvægt.

Mikið af minni flugvöllunum sem eru nánast ekkert notaðir þurfa samt viðhald út af almannavarnamálum. Þeir eru liður í því að tryggja að hægt sé að ferja fólk af vissum svæðum. Það má alls ekki gleymast. Annað sem við þurfum að hafa í huga í samgöngumálum eru almannavarnamál, hvernig fólk getur flúið af svæðum, hvernig við getum bjargað fólki af svæðum þegar eitthvað stórt gerist í samfélaginu.