149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[14:38]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Það hefur vakið athygli í umræðunni um samgönguáætlun í dag og í gær og raunar virðist gegnumgangandi í málflutningi Sjálfstæðismanna að þeir telja ekki nóg að gert. Raunar mætti orða það svo að Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera kominn af stað með fundaherferð um sína eigin samgönguáætlun. Ég velti því fyrir mér og vil spyrja hv. þingmann: Styðja þingmenn flokksins ekki þá samgönguáætlun sem hér er verið að leggja fram? Nýtur hæstv. samgönguráðherra ekki trausts þingmanna flokksins í framlagningu samgönguáætlunar og að hún fari í hefðbundinn farveg í þinginu? Telja þingmenn flokksins henni svo ábótavant að það þurfi í raun og veru að leggja hér upp í vinnuna að nýju, samanber fundaherferð þingmanna flokksins um landið þar sem talað er fyrir, að því er best verður séð, nýrri samgönguáætlun Sjálfstæðisflokksins í þessu ríkisstjórnarsamstarfi?