149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[14:43]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er auðsvarað, samgönguáætlun hlaut að sjálfsögðu góða umfjöllun í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og var afgreidd þar út hratt og örugglega. Einhverjir settu almenna fyrirvara en það var nú ekki meira en svo. Við erum tilbúin til að taka alla þá umræðu og vinna að þessari samgönguáætlun, að sjálfsögðu, enda þarf að leggja hana fram.

Mér finnst svolítið skrýtið að það veki mikla undrun hjá hv. þm. Þorsteini Víglundssyni ásamt fleirum að áhugasamir þingmenn um samgöngumál og kappsamir um að hægt sé að fara í frekari samgönguframkvæmdir komi ekki bara hér og heimti meiri peninga úr ríkissjóði og segi: Ég ætla ekki að samþykkja þessa samgönguáætlun nema Reykjanesbrautinni verði flýtt, nema Ölfusárbrú verði flýtt. Á ég að koma hér og segja það? Er ekki ábyrgara að ég ræði einhverjar leiðir til að fjármagna þessi verkefni svo hægt sé að flýta þeim, taka það samtal? Er það ekki öllu eðlilegra? Er það allt í einu orðið eitthvað ótrúlegt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins ræði samgöngumál og pólitísk mál og hvernig hægt er að flýta samgönguframkvæmdum?

Ég veit ekki betur en að meira að segja hv. þm. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, komi hér alveg sótsvartur yfir því hvað fer lítið í hans kjördæmi. Er það nálgunin sem hv. þingmenn vilja frá mér þegar ég kem hér upp og tala um samgönguáætlun? Það held ég ekki. Ég ætla að halda áfram að ræða það hvernig við getum tekið stærri skref í samgöngumálum. Það þarf tíma til að ræða svona stór og tilfinningarík mál. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið.