149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[14:45]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Í þessari seinni ræðu minni, um samgönguáætlun til fimm og 15 ára, vil ég víkja sérstaklega að stöðu samgangna í Vestfjarðafjórðungi, og ekki að ástæðulausu. Vestfirðir eru að mörgu leyti enn fastir í árinu 1960 ef ekki aftar þegar kemur að ýmsum samgöngumálum, sér í lagi vegamálum. Það er alveg ljóst að Vestfirðir hafa ekki verið tengdir grunnneti samgöngukerfisins annars staðar á landinu, ekki enn þá.

Ég tók sérstaklega eftir því að hæstv. samgönguráðherra segir að í þessari samgönguáætlun sé það forgangsmál að koma Vestfjörðum inn í grunnnetið, að laga þar vegi og annað. Það er vel og að mörgu leyti bera þessar tvær samgönguáætlanir það með sér að það standi til. Það er mjög gott mál.

Ekki er hægt að ræða þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru án þess að benda á þann augljósa ágalla sem er á þessari áætlun. Er ég þá sérstaklega að vísa til þeirra framkvæmda um Dynjandisheiði og Bíldudalsveg sem settar eru inn á öðrum og þriðja hluta áætlunar til 15 ára, að ekki skuli ljúka vegagerð um Bíldudalsveg og Dynjandisheiði fyrr en mögulega í lok seinni hluta áætlunar, eða árið 2028. Framkvæmdir eru áætlaðar á Dynjandisvegi þremur árum eftir að Dýrafjarðargöng verða tekin í notkun. Þá er meginþungi þess fjármagns settur í Dynjandisheiðina, þremur árum eftir að göngin verða opnuð. Það, herra forseti, er ekki boðlegt. Það er ekki hægt að bjóða Vestfirðingum, fólki, upp á þá stöðu að þurfa að bíða enn lengur eftir því að geta keyrt vegi sem teljast nútímalegir vegir.

Þetta er atriði sem ég tel að hæstv. umhverfis- og samgöngunefnd verði að skoða. Ég veit að það verður ekkert auðvelt að ná samkomulagi hér í þinginu um hvernig eigi að breyta innri forgangsröðun í áætluninni, en ég tel það ekki vera boðlegt, og tel að þingheimur muni sýna því fullan skilning, að Vestfirðingar sitji áfram fastir í árinu 1960.

Það er annað atriði sem ég vil koma inn á, það eru fyrirhugaðar framkvæmdir um Gufudalssveit. Nú veit ég að hæstv. samgönguráðherra er mjög fylgjandi þeirri framkvæmd, enda kemur það fram að stefnt er að framkvæmdum í fyrsta hluta 15 ára áætlunar.

Eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni er ekki nóg að hafa áætlun, það er ekki nóg að hafa fjármagn, það verður að liggja fyrir hvernig við ætlum að ráðast í þær framkvæmdir. Þessi framkvæmd í Gufudalssveit hefur verið stopp í stjórnsýslunni í um 20 ár. Fyrir ári lagði ég fram lagafrumvarp sem átti að heimila vegarlagningu um Gufudalssveit ásamt öðrum þingmönnum kjördæmisins. Það var fyrir ári, málið er enn stopp. Hvernig ætlum við að komast inn í þessa framkvæmd? Þingið hlýtur að taka það til sérstakrar skoðunar hvernig fara á í þessa framkvæmd.

Þingið hefur lýst vilja sínum. Fjármagnið er til staðar. En það virðist enn vera fast í stjórnsýslunni. Það, herra forseti, er ekki boðlegt. Það gengur ekki upp.