149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[14:53]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hafði mjög langan og einkennilegan formála að mjög einfaldri spurningu. Ég ætla því að gera slíkt hið sama og jafnvel velta því upp hvort hv. þingmaður hafi í fyrsta lagi hlustað á fyrri ræðu mína þar sem ég fór mjög almennt yfir samgönguáætlun hæstv. samgönguráðherra, fjallaði um hvað væri gott í henni, hvaða sjónarmið væru ný og bæri að horfa sérstaklega til í hinni þinglegri meðferð áætlunarinnar, til að mynda öryggi eða tengivegir í sveitum landsins. Um margt eru það góð atriði sem þarf að skoða og velta fyrir sér hvernig hægt er að lyfta upp.

Ég ræddi líka í þeirri ræðu um ýmsa þá kosti sem eru í boði ef það er vilji þingsins að ráðast hraðar í ýmsar framkvæmdir, en ég tók líka sérstaklega fram að það væri rétt hjá hæstv. ráðherra að leggja fram raunhæfa samgönguáætlun sem væri í samræmi við fjármálaáætlun.

Herra forseti. Þetta er ég ekki viss um að hv. þingmaður hafi skilið þegar hann kom upp í andsvar, enda er svar mitt við því sem hv. þingmaður spyr um ósköp klárt nei.