149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[15:03]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hérna samgönguáætlun til fimm ára og samgönguáætlun til 2033. Í ræðu samgönguráðherra kom fram að fimm ára áætlunin væri fullfjármögnuð og aldrei hefði verið lagt meira til samgangna í fjármálaáætlun eins og í þessari áætlun og má það vel vera rétt en við Íslendingar höfum líka aldrei verið fleiri en nú og notkun á samgöngukerfi landsins og þörfin hefur aldrei verið eins mikil og núna.

Ég segi eins og sumir fleiri hafa sagt að þessi áætlun er frekar afturþung. Eftir fimm ár er aukið mikið í og átta ég mig ekki alveg á því hvernig sú fjármögnun á að fara fram, hvernig allt í einu er hægt að bæta við að loknum þessum fimm árum. En gott og vel, tíminn hlýtur að leiða það í ljós.

Staðreyndin er sú að við erum mjög mikið á eftir í samgöngum á Íslandi miðað við hvað þörfin er brýn. Má segja að sögulega skýringin á því sé örugglega sú að við erum að mörgu leyti að vinna úr því sem þjóðin lenti í 2008 þegar hrunið varð og allt fór á hliðina. Síðan höfum við verið að rétta úr kútnum, en þetta kom mikið niður á samgöngum og kannski mest að mörgu leyti vegna þess að þar erum við miklu lengra á eftir en í mörgum öðrum málum sem teljast vera það sem við köllum innviðauppbyggingu. Ég hef töluverðar áhyggjur af því eins og margir aðrir og hef verið mjög vakandi yfir því hvaða leiðir er hægt að fara til þess að ná fram fyrir skottið á okkur í samgöngumálum. Þá er ég að sjálfsögðu tala mest um vegaframkvæmdir. Vissulega er það sama uppi í hafnarframkvæmdum og í flugi, en mest er talað um vegasamgöngur. Á sínum tíma, um 2006, var t.d. búið að hanna Sundabraut yfir á Kjalarnes og hún var komin á útboðsstig, held ég, þegar það gekk til baka. Eins væri hægt að telja upp fleiri samgönguframkvæmdir sem ekki varð af út af fyrrnefndum ástæðum.

Það sem hefur vakið athygli mína var þegar hv. þm. Jón Gunnarsson kom hér í gær og sagði að í hans flokki væru menn að koma fram með og kynna sex ára samgönguáætlun, sem var víst gert í gær uppi í Valhöll. Þá varð ég mjög forvitinn og líka pínulítið hissa á því að þetta skyldi koma fram vegna þess að þeir eru saman í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Samt sem áður gleður það mig að það séu að koma fram hugmyndir sem ég á reyndar eftir að sjá hvernig verða, í hverju þær eru fólgnar, og það verður gaman að fylgjast með því.

Það er staðreynd að umferðin hefur aukist mikið og það eru 2 milljónir ferðamanna sem koma til landsins á ári og stefnir í 2,3 milljónir á þessu ári. Þeir keyra mikið um vegi landsins og að sjálfsögðu borga þeir skatt í gegnum olíu og bensín eins og aðrir með því að keyra bensín- og olíubíla. Þegar talað er um hugsanlega vegtolla þá virðist umræðan fara svolítið á annan endann vegna þess að fólk vill að þetta fé sé tekið úr ríkissjóði í gegnum það sem hefur alltaf fjármagnað þetta, en eins og áður hefur komið fram þá er þörfin brýn að ná í skottið á okkur og það þarf að leita annarra leiða.

Ef allur þessi fjöldi útlendinga sem keyrir um vegi landsins þyrfti að borga vegtolla einhvers staðar þá hugsa ég að þeir myndu ekkert hrökkva við. Þegar maður ferðast erlendis borgar maður alls staðar vegtolla og gerir það bara að sjálfsögðu. Það hefur sýnt sig með Hvalfjarðargöngin, sem núna eru fullborguð, að þar borga menn bara fyrir, þeir sem nota þau oft borga minna og þar fram eftir götunum. Þetta þarf ekki að þýða að allir séu að borga sama gjaldið, það eru leiðir til í því.

Ég sagði það í andsvari áðan við hv. þm. Ásmund Friðriksson, sem reyndar hljóp úr húsi þegar ég fór í pontu en ekki af því að hann væri svona hræddur við mig, heldur tók hann bara ekki eftir því að ég fór í andsvar, að ég biði spenntur eftir því að heyra hvernig þessi áætlun þeirra væri, það er spennandi að bíða eftir því.

Það hefur komið fram hérna í ræðum að landsbyggðin situr mikið á hakanum. Hv. þingmaður sem talaði á undan mér, Teitur Björn Einarsson, talaði um Vestfirðina. Það er ótrúlegt að það skuli vera þannig að Dynjandisheiðin verði ekki klár fyrr en eftir þrjú ár þegar Dýrafjarðargöngin verða komin í gagnið. Vonandi verður hægt að finna leiðir til að koma því í skikkinn.

Málið er brýnt og fjárfesting í samgöngum er það sem við þurfum að stefna að. Það er ekki bara þannig að þörfin fyrir bættar samgöngur á hverjum stað sé vegna fólksins sem býr þar heldur er það líka til að byggja upp landið. Byggja upp úti á landi. Það er þessi þáttur sem er búið að tala um í svo mörg ár, að jafna aðstöðu alls staðar á landinu til innviðauppbyggingar. Ég verð bara að segja eins og er að ég er mátulega bjartsýnn á að við getum farið í þá vegferð mjög hratt, miðað við það sem maður les í þessari áætlun. Ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það.