149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[15:21]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að lengja umræðuna örlítið. Ég er afskaplega feginn að nú er komin samgönguáætlun. Það er með þá áætlun eins og öll önnur þingmál að það er eitt og annað sem ég myndi vilja hafa öðruvísi. Ég held að ég hafi ekki fundið eitt einasta þingmál síðan ég byrjaði á þingi fyrir sex árum sem ég hef verið fullkomlega sammála.

Þetta er ágætisáætlun. Hún er í samræmi við fjármálaáætlun, forgangsröðunin er byggð á málefnalegum sjónarmiðum og þess vegna styð ég hana.

Ég er þeirrar skoðunar, af því að ég er kvæntur konu úr Eyjum, að samgöngur séu afskaplega mikilvægar. Ég get sagt hæstv. ráðherra að ég missti af Lundaballinu núna í Eyjum fyrir viku síðan vegna þess að siglt var úr Þorlákshöfn. Ég þoli það ekki, það er of löng sigling fyrir mig. Ég missti því af samkvæminu.

Af hverju eru samgöngur svona mikilvægar? Það er ekki aðeins til að vera fljótari í förum, líða betur í bílnum, ekki einungis til að draga úr slysum. Þær eru mjög mikilvægar til að geta haldið úti samkeppnishæfri byggð og auka samkeppnishæfni landsins við útlönd. Í sveitinni erum við nær matvælaframleiðslu, fiskvinnslu, styttra og auðveldara er að fara með vörurnar o.s.frv. Það er mjög mikilvægt.

Síðast en ekki síst eru samgöngur mikilvægar fyrir ferðaþjónustuna í landinu. Við erum að reyna að byggja upp alvöruatvinnugrein, ferðaþjónustuna, sem er orðin mjög mikilvæg og getur orðið enn mikilvægari ef samgöngur verða betri.

Að því sögðu má segja að samgöngur, bættar samgöngur, séu gífurlega góð fjárfesting.

Hér hafa menn lagt áherslu á að gera enn betur, afla frekari fjármuna til að fara hraðar í þær framkvæmdir sem við vitum að þarf að fara í svo að hlutirnir séu í þokkalegu lagi. Þá er kannski þrennt til, sem hefur komið meira og minna fram í ræðum. Það er spurning um einhvers konar veggjöld, einhvers konar samvinnu við einkaaðila til að flýta og fjármagna og síðast en ekki síst að hugsanlega losa sig við eignir sem ríkið á, sem við getum sagt að séu ekki eins góð fjárfesting og bættar samgöngur. Ég held að við eigum að athuga það mjög gaumgæfilega. Við erum að tala um fjárfestingu í samgöngum sem mun auðvitað borga sig með bættum möguleikum á að stunda alvöruatvinnustarfsemi.

Þetta snýst líka svolítið um jafnræði á milli landshluta. Ég hef sagt áður að það eru þrjú atriði sem skipta máli fyrir alla landshluta, þ.e. góðar samgöngur, orka, að menn fái rafmagn, og fjarskipti. Ef þeir þrír hlutir eru í lagi skiptir engu máli hvar atvinnurekstur er settur niður. Þá verður byggðin kannski þéttari á hverjum stað og úti um allt land í staðinn fyrir að þetta safnist allt saman á Suðvesturhorninu.

Ég vildi minnast á þau atriði í kringum samgönguáætlun. Menn mega ekki verða viðkvæmir fyrir því yfir höfuð að við viljum reyna að gera þetta hraðar eða fyrir þeim hugmyndum manna að bæta í á þann hátt sem ég nefndi. Ég held að það sé ágætisumræða. Ég styð eiginlega öll atriðin, þ.e. veggjöld þar sem því verður við komið og það er hagstætt, samvinnu við einkaaðila um að flýta framkvæmdum og síðan að skoða að ríkið losi sig við eignir þar sem fjárfestingin er ekki eins góð og í bættum samgöngum.

Ég held að það sé full ástæða fyrir umhverfis- og samgöngunefnd að fara ítarlega yfir, jafnvel með fjárlaganefnd, hvort við getum bætt meira í án þess að raska allri fjármálaáætlun. Ég beini því líka til hæstv. samgönguráðherra, við ættum öll að velta því fyrir okkur. Ég tel það afar mikilvægt. Það er einfaldlega þannig og hefur verið mjög lengi, eiginlega frá því að ég man eftir mér, að flest annað er tekið fram fyrir bættar samgöngur. Það er eins og við teljum okkur alltaf geta beðið með þær, af því að það er ekki neyðarástand, menn komast einhvern veginn milli staða þótt það sé ekki alltaf, alla daga. Þá er annað tekið fram fyrir. Þess vegna höfum við setið afskaplega lengi eftir og hægur uppgangur verið í bættum samgöngum, allt of hægur áratugum saman. Það hefur ekki skipt máli þótt það hafi verið góðæri.

Ég tel að við eigum að skoða alla möguleika sem við getum hugsanlega fundið til að hraða þessu og gera enn betur en þó er lagt til í hinni ágætu samgönguáætlun.