149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[15:32]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni kærlega fyrir svarið og get sagt honum, eins og hann eflaust veit, að hægt er að hlusta víðar en bara hér í þingsal. Ég hlustaði gaumgæfilega á ræðu hans sem og ræður annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem boða aðra leið í samgöngumálum á sama tíma og hæstv. samgönguráðherra boðar leið ríkisstjórnarinnar. Það kann vel að vera að þingmaðurinn styðji þessa samgönguáætlun í einu og öllu en bendi á einhverja núansa. Maður veltir því samt fyrir sér, þegar boðuð er önnur leið en sú sem er verið að kynna hér sem leið ríkisstjórnarinnar, hvað óbreyttir þingmenn stjórnarandstöðunnar eigi að halda þegar þessir tveir gömlu vinir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, eru saman í ríkisstjórn og boða annars vegar leið ríkisstjórnarinnar og hins vegar einhverja aðra leið.