149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[15:34]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er auðvitað ekki að boða neina aðra leið. (Gripið fram í.) Ég boða enga aðra leið. Ég er bara að ítreka stefnu míns flokks og það er ekkert að því og ég hef svo sem gert það áður, þó að ég sé í ríkisstjórnarsamstarfi með öðrum. Mér finnst það líka allt í lagi.

Það er mikill stuðningur við þessar samgönguáætlanir. Þessir gömlu vinir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafa (Gripið fram í.) gjarnan leyst sín mál auðveldlega og náð saman. Það er ekki alltaf hægt að segja um aðra flokka. Þannig að ég hef engar áhyggjur af þessu, hv. þingmaður, og held að ríkisstjórnin sé samhent og á sömu leið varðandi þessar samgönguáætlanir og muni ýta þessu áfram.

En þó að menn séu það er líka allt í lagi að menn fari yfir hlutina. Ég þykist vita að hæstv. samgönguráðherra myndi glaður vilja fá meira fé til að gera enn betur og bæta við þessa samgönguáætlun, ég efast ekki um það. Þó að einstakir þingmenn hafi verið á fundum að ræða hvernig hægt væri að ganga lengra og gera betur þýðir það ekki að einhver upplausn sé á stjórnarheimilinu. Það er öðru nær. Það hefur aldrei verið betra að vera þar.