149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[15:36]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir ræðuna. Það er ánægjulegt að heyra að hann styður þá samgönguáætlun sem hefur verið lögð fram og talar um að hún sé góð og fullfjármögnuð.

Hann gerði einnig að umtalsefni mikilvægi samgangna. Ef við skoðum samgönguáætlunina er hún ekki eingöngu tölur úr Excel-skjali heldur eru líka sett fram markmið. Meginmarkmiðið er traustir og öruggir innviðir.

Mig langar til að hnýta aðeins í það að áætlunin sé góð og fullfjármögnuð. Innanlandsflugvallakerfið og varaflugvellirnir eru ekki fullfjármagnaðir, það er bara svo. Aukningin til vara- og innanlandsflugvallakerfisins er sem nemur uppgerð á sirka hálfum bragga. Það er ekki nóg.

Hv. þingmaður gerði einnig að umtalsefni að þrjár leiðir væru til að auka fjármuni; veggjöld, samvinnuleið og að losa sig við eignir. Mig langar að spyrja hv. þm. Brynjar Níelsson: Hvaða eignir á að selja? Á hvaða verði? Verða það gjafagjörningar, samanber nýlega sölu á banka?