149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[15:38]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég fæ einhverju ráðið verða það ekki gjafagjörningar. Ég er mjög nískur maður þegar kemur að eignum ríkisins. (Gripið fram í: Og almennt séð bara.) Og almennt séð. Ég hef ekki svar við því hér og nú hvaða eignir það ættu að vera, enda sagði ég að við ættum að skoða það ítarlega í meðferð málsins hvort einhverjar eignir, sem ég er ekki í nokkrum vafa um að séu víða, væru betri fjárfesting í bættum samgöngum en í þeirri fjárfestingu sem þær liggja í núna. Eitt af því gætu örugglega verið bankar. Ég held að það sé afleit fjárfesting fyrir ríkissjóð að sitja með mörg hundruð milljarða í banka í dag, algerlega afleitt.

Að sjálfsögðu þarf að vanda til verka þegar menn losa miklar eignir ríkisins en ég er alveg sannfærður um að það sé betri fjárfesting fyrir ríkissjóð að setja andvirði banka í bættar samgöngur en að standa í slíkum áhætturekstri sjálfur. Margt annað kæmi örugglega til greina. Við erum með ýmsar eignir, erum í ýmsum rekstri sem ég tel betur komið fyrir hjá öðrum. Það geta verið verðmæti í þeim rekstri, hann getur verið söluvænlegur og jafnvel geta aðrir gert betra úr þeim rekstri en ríkið.