149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[15:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Tvennt örstutt að lokum sem ég náði ekki að koma að í fyrri ræðu. Aðeins um flugvallarmál. Það er ákveðið grunnnet flugvalla skilgreint samkvæmt IP-handbók Isavia. Þar eru skilgreindir nokkrir flugvellir sem eru allir inni á samgönguáætlun nema tveir, þ.e. á Sauðárkróki og Þingeyri. Ekki er farið sérstaklega yfir þá í samgönguáætlun.

Þá veltir maður fyrir sér af hverju þeim sleppt. Þýðir það kannski að verið sé að draga þá út úr grunnnetinu og endurskilgreina þá sem skráða lendingarstaði, eða gleymdust þeir á einhvern annan hátt? Ég velti fyrir mér hvort ekki ætti að vera samhljómur á milli handbókarinnar og samgönguáætlunar.

Varðandi þá flugvelli sem eru utan grunnnetsins eða skráðra lendingarstaða: Ætti ekki líka að taka tillit til þeirra í samgönguáætlun þar sem þeir eru mjög mikilvægir fyrir þjálfun flugmanna, áhugaflug og sjúkraflug, svo að eitthvað sé nefnt?

Ég vonast til að fá frekari svör við því. Ef ráðherra kemur því ekki að í lokaræðu, ef hann hefur áhuga á því og er tilbúinn fyrir það, kemur það í ljós í nefndinni.