149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

þingmannamál á dagskrá og fundur í umhverfis- og samgöngunefnd.

[16:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Oft erum við vænd um það að vera í bölvuðu rugli í þessum þingsal. Þetta tekur alveg toppinn á því. Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir, sem situr í umhverfis- og samgöngunefnd, var ekki mætt á fund nefndarinnar í morgun. Í hennar stað kom hv. þm. Guðjón Brjánsson. Það var samþykkt án nokkurra athugasemda, af öllum þeim sem sátu nefndarfundinn í morgun, að við myndum funda að loknum umræðum um samgöngumálin (HVH: Það stendur: Að loknum þingfundi, í fundargerðinni.) — það var samþykkt að gera þetta að loknum umræðum um samgöngumál eða það mál sem kæmi þar á eftir. Þetta er tveggja mínútna fundur, svo gerð sé grein fyrir því, bara til þess að vinna tíma og koma samgöngumálunum í umsögn. Það tekur okkur u.þ.b. tvær mínútur. Svo er hægt að málalengja hér til að þvælast fyrir og sýna þessu þingi þann sóma að stunda slík vinnubrögð. (HVH: Við erum ekki að …) Þetta er ekki til að efla reisn þessa þings (Forseti hringir.) en það eru akkúrat þessi vinnubrögð … (Gripið fram í: Það er ekki stjórnarandstaðan sem hefur verið að þvælast hér fyrir í dag.) — Hér getur hv. þm. Helga Vala Helgadóttir ekki einu sinni setið á sér. (Forseti hringir.) Gaspri hún sem mest, það er hennar vani (Forseti hringir.) og kemur okkur ágætlega vel sem erum pólitískir andstæðingar hennar.