149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

um fundarstjórn.

[16:31]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil upplýsa að ég hef setið tvo fundi í hv. umhverfis- og samgöngunefnd í dag. Á nefndarfundinum í morgun tók enginn til máls, nema undir liðnum um önnur mál, og þar var aðeins rætt um það hvort nefndarmenn væru sammála því að koma saman í dag, að loknum þingfundi eða fyrr, til þess að samþykkja samgönguáætlun út til umsagnar svo að hún kæmist í lýðræðislegt umsagnarferli. Þá voru áhöld um hvort það mál sem hæstv. samgönguráðherra var að flytja nú rétt áðan færi til umhverfis- og samgöngunefndar eða atvinnuveganefndar. Það var samdóma álit nefndarmanna — í ljósi góðrar samvinnu, eins og gerist nú á mörgum vinnustöðum, en getur oft verið erfitt hér — að ef málið færi til hv. atvinnuveganefndar myndum við hafa fundinn fyrr. Þannig var umræðan, en enginn þeirra sem mættir voru á þann fund hefur tekið til máls hér. Fundur fór fram, tók eina mínútu og tími gefst þar til á morgun að bæta við umsagnaraðilum.